131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Ólögmætt samráð olíufélaganna.

427. mál
[12:32]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu hefur ekki farið fram hjá neinum sú rannsókn og niðurstaða samkeppnisyfirvalda sem nú liggur fyrir um að olíufélögin hafi haft með sér ólögmætt verðsamráð hvað varðar verðlagningu á olíu. Mörg fyrirtæki og samtök og sveitarfélög hafa verið að skoða réttarstöðu sína að undanförnu og vega það og meta hvort sækja eigi bætur til olíufélaganna vegna þessa ólögmæta samráðs. Það er mikilvægt að allir skoði réttarstöðu sína og hvernig eigi að halda á þeim málum í framhaldinu.

Flestir í samfélaginu urðu fyrir barðinu á þessu ólögmæta samráði og að sjálfsögðu var þar ríkið ekki undanskilið. Í a.m.k. sjö tilvikum hefur ríkið beint eða óbeint verið þolandi í þessu samráði. Í fyrsta lagi var það árleg útboð og verðkannanir Vegagerðarinnar frá árinu 1995–2001, í öðru lagi útboð Landhelgisgæslunnar vegna kaupa á olíuvörum 1996, útboð dómsmálaráðuneytisins 1996 vegna kaupa á olíuvörum á lögreglubifreiðar, í fjórða lagi útboð og verðkönnun Landssímans 1998, í fimmta lagi samráð vegna útboðs Íslandspósts, í sjötta lagi samráð félaganna um afslátt til dómsmálaráðuneytisins 1998 og í sjöunda lagi samráð félaganna um afslátt til lögreglunnar í Borgarnesi 1998 vegna kaupa á olíuvörum fyrir lögreglubifreiðar.

Það er síðan athyglisvert í þeirri skýrslu og þeim úrskurðum sem liggja fyrir að á árinu 2000 voru forstjóri og aðstoðarforstjórar olíufélaganna að ræða uppgjör á milli olíufélaganna vegna framlegðar vegna viðskipta við dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæslu. Hið sama átti við um þessa yfirmenn sem hittust til að ræða skiptingu á viðskiptum við Landsvirkjun, Rarik, Vegagerðina, dómsmálaráðuneytið, Hafrannsóknastofnun, Vestmannaeyjabæ og fleiri á árinu 2001.

Að þessu samandregnu, virðulegi forseti, hlýtur að vakna spurningin: Hvernig ætlar ríkið og þá væntanlega fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins að halda á þessum málum fyrir ríkissjóð? Hvernig hyggst hann bregðast við? Af þeim sökum hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að bera fram svohljóðandi fyrirspurn:

Til hvaða aðgerða hefur ráðherra gripið til að tryggja hagsmuni ríkissjóðs vegna ólögmæts samráðs sem olíufélögin höfðu með sér í útboðum ríkisins og stofnana þess við kaup á olíuvörum? Er hafinn undirbúningur að höfðun skaðabótamála vegna tjóns sem ríkið og stofnanir þess urðu fyrir af völdum samráðs olíufélaganna?