131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Ólögmætt samráð olíufélaganna.

427. mál
[12:38]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Þeir sem fylgst hafa með þessu máli eða málefnum olíufélaganna vita að himinn og haf eru á milli áætlaðs ávinnings þeirra af samráði og væntra sektargreiðslna. Þegar fjallað hefur verið um þetta hefur verið bent á að þolendur þessa samráðs gætu farið í einkamál við olíufélögin og mundu væntanlega gera það. Því er ekki óeðlilegt að spurt sé hvað ríkið ætli að gera í þessu máli því ef þolendur eiga að sækja rétt í hendur olíufélaganna þá er ríkið óneitanlega og örugglega einn af þessum þolendum. Því er rétt að spyrja bara mjög einfaldrar og einfeldningslegrar spurningar og gott væri ef hæstv. fjármálaráðherra gæti svarað henni. Spurningin er: Ef svindlað var á ríkinu mun þá hæstv. fjármálaráðherra bregðast við og sækja rétt ríkisins?