131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Ólögmætt samráð olíufélaganna.

427. mál
[12:44]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel það ekki til marks um sérstakt hæglæti að á miðvikudegi sé ekki búið að bregðast við niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem féll á mánudaginn var. Málið er auðvitað til athugunar á réttum vettvangi innan ríkiskerfisins eins og annars staðar. Ríkið hefur í sinni þjónustu ágæta lögfræðinga sem munu fara yfir þetta og síðan komumst við að niðurstöðu um það hvort þarna sé einhvern rétt að sækja og hvernig best sé þá að standa að því.

Auðvitað er þetta mál margslungið hvað varðar ríkisvaldið sem er náttúrlega með ýmsar stofnanir á sínum snærum, m.a. þær sem hafa verið að vinna þetta mál. Ríkissjóður fær væntanlega þær sektir sem þarna kann að þurfa að greiða. En ég vek athygli á þeirri nýstárlegu kenningu sem Samfylkingin var með fyrir jólin að ríkissjóður hefði öðrum fremur grætt á þessu samsæri olíufélaganna í formi hærra olíuverðs og hærri gjalda á það. Sú nýstárlega kenning hefur ekki (Gripið fram í.) verið nefnd í þessari umræðu enda taldi ég í ljós leitt að eins og hún var fram sett þá var hún alveg út í hött. (Gripið fram í.) Þetta sýnir bara að þetta mál hefur margar hliðar. En sú hlið sem hér er núna til umræðu snýr að viðskiptum tiltekinna ríkisaðila við olíufélögin og hvort þeir aðilar hafi greitt of hátt verð fyrir sitt eldsneyti. Við munum fara yfir þá hlið málsins eins og okkur ber skylda til og komast að niðurstöðu varðandi þá réttarstöðu sem uppi er gagnvart þeim ríkisaðilum.