131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þróun á lóðaverði.

470. mál
[12:49]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft athyglisverðu máli. Því miður liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um allt það sem hv. þingmaður spyr um, sem er í fyrsta lagi:

„Hver hefur þróun lóðaverðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu verið árin 2000–2005 og hvernig hefur verð á íbúðarhúsnæði þar þróast á sama tímabili?“

Því er til að svara að ráðuneytið hefur ekki yfir að ráða sundurliðuðum upplýsingum um markaðsverð einstakra lóða og landspilda á mismunandi svæðum á landinu út frá kaupsamningum um slíkar eignir. Sölur á óbyggðum lóðum eru strjálar enda eignarlóðir í miklum minni hluta hér á landi. Lóðasölur og sölur á byggingarrétti lands er oft hluti af kaupsamningum um gömul hús sem ætlunin er að rífa. Í slíkum tilfellum skortir nákvæmar upplýsingar um fjölda væntanlegra lóða og byggingarmagn til að unnt sé að leiða raunverulegt lóðaverð af slíkum samningum.

Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins hefur fasteignamat íbúðarhúsalóða á höfuðborgarsvæðinu hins vegar hækkað um 187% frá árinu 2000. Athuga verður að innifalið í þeirri hækkun fasteignamats er endurmat Fasteignamatsins árið 2001 sem var umfangsmikil leiðrétting á matsgrunninum, árlegur framreikningur fasteignamats og aukinn fjöldi lóða á byggingarmarkaði. Hin almenna aukning sem orðið hefur á byggingarmagni hverrar lóðar leiðir þannig af sér hærra lóðarmat. Samkvæmt vísitölu fasteignaverðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu sem Fasteignamat ríkisins gefur út hækkaði hins vegar verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 67,6% frá janúar 2000 til desember 2004. Samkvæmt útreikningum Fasteignamatsins sem byggja á þinglýstum kaupsamningum nam hækkun á ársmeðaltölum íbúðaverðs í Reykjavík á milli áranna 2000 og 2004 um 40,4%.

Í öðru lagi spyr hv. fyrirspyrjandi:

„Hver hefur þróun lóðaverðs á Akureyri verið árin 2000–2005 og hvernig hefur verð á íbúðarhúsnæði þar þróast á sama tímabili?“

Það sama á við og áður að ekki liggja fyrir sundurliðaðar upplýsingar um markaðsverð einstakra lóða og landspilda á Akureyri út frá kaupsamningum frekar en í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins hefur fasteignamat íbúðarhúsa og lóða á Akureyri hins vegar hækkað frá árinu 2000 um 244%. Eins og á höfuðborgarsvæðinu er í þeirri hækkun fólgið endurmat fasteignamats árið 2001, árlegur framreikningur fasteignamats og aukinn fjöldi lóða og byggingarmagns. Samkvæmt útreikningum Fasteignamats ríkisins sem byggja á þinglýstum kaupsamningum nam hækkun á ársmeðaltölum íbúðaverðs á Akureyri milli áranna 2000 og 2004 um 40,3% sem er nánast sama tala og í Reykjavík.

Í þriðja lagi spyr hv. fyrirspyrjandi:

„Telur ráðherra að lóðaverð íbúðarhúsnæðis hafi haft mikið að segja um þróun verðlags íbúðarhúsnæðis?“

Eins og tæpt er á hér að framan eru ekki fyrir hendi nægileg gögn til að leggja sjálfstætt mat á það hvernig verð á lóðum undir íbúðarhúsnæði hefur haft áhrif á þróun verðlags íbúðarhúsnæðis. Sölur á óbyggðum lóðum eru fátíðar og lóðasölur og sölur á byggingarrétti eins og áður hefur komið fram oft fólgnar í kaupsamningum um gömul hús sem ætlunin er að fjarlægja. Í slíkum tilfellum skortir án sérstakrar könnunar nákvæmar upplýsingar um fjölda væntanlegra lóða og byggingarmagn á þeim til að unnt sé að leiða raunverulegt lóðaverð af samningunum. En jafnframt hefur ekki verið safnað með kerfisbundnum hætti upplýsingum um lóðaverð í útboðum sveitarfélaga hér á landi. Hins vegar er alveg ljóst af þeim tölum sem hér hafa verið raktar að lóðaþátturinn hefur haft verulega þýðingu í þeirri hækkun á fasteignaverði sem orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri á því tímabili sem fyrirspyrjandi spyr um.