131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Fræðsla um meðferð kynferðisafbrotamála.

105. mál
[13:04]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég tek undir hans góða vilja til að efla fræðslu og forvarnir og þróa alla þá þekkingu sem til staðar er í samfélaginu til að vinna gegn slíku tjóni og meðhöndla fórnarlömb þessa voðaglæps.

Hæstv. ráðherra segir að ekki séu áform um samræmingu á þekkingu fagstéttanna. Hins vegar sé um að ræða samstarfsverkefni margra ráðuneyta og vil ég nota tækifærið hér að lokum til að hvetja hæstv. ráðherra til að skoða það mál vel og beita sér jafnvel síðar fyrir því að ráðuneytin hafi með sér samvinnu um að efla og samræma þekkingu á sviði kynferðisafbrotamála. Ég held að það gætu orðið mjög farsæl skref, mjög mikilvæg skref til lengri tíma litið til að sem allra best og með sem vönduðustum hætti sé brugðist við meðhöndlun fórnarlamba kynferðisafbrota. Það gæti haft veruleg áhrif í þeirri vinnu allri. Eins og fram kom hjá fagstéttunum er þekkingin mjög ólík, stundum alls ekki nægjanleg og mjög er mikilvægt held ég að samræma þessa þekkingu þannig að undir liggi samræmd grundvallarþekking þó að fagstéttirnar taki svo á málinu á ólíkum stigum og hver með sínum hætti.