131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

414. mál
[13:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög nauðsynleg umræða sem hér fer fram og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa komið með þessar fyrirspurnir. Eins og hefur komið fram í umræðunni er mjög brýnt að tryggja sjálfstæði og réttindi eldra fólks sem þarf stuðning, þarf að búa á hjúkrunarheimilum eða þarf heilbrigðisþjónustu og vill vera heima. Ég tel eðlilegt að eldra fólk hafi val um það hvernig hagir þess eru á ævikvöldinu. Það á að geta átt einkalíf sitt í friði og ekki þurfa að una því að deila herbergi með öðrum, jafnvel fólki sem það þekkir ekki neitt. Við þurfum auðvitað að tryggja að bætt verði úr því enda hefur þróunin verið í þá átt eins og hæstv. ráðherra benti á. Það er orðið tímabært að breyta þessu fyrirkomulagi og tryggja einnig fjárhagslegt sjálfstæði eldra fólks sem er ekki raunin, eins og bent var á, inni á þessum stofnunum þar sem menn þurfa að búa við það að þurfa að sækja um vasapeninga og halda ekki tekjum sínum.