131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein.

290. mál
[13:23]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s., Ásta R. Jóhannesdóttir, spyr: „Hvað líður ákvörðun um greiðsluþátttöku heilbrigðiskerfisins í húðflúrsmeðferð í kjölfar aðgerðar vegna brjóstakrabbameins?“ Hún hefur rakið fyrri umræður okkar um málið og geri ég ekki athugasemdir við það.

Húðflúrsmeðferð er af mörgum talin góð aðferð til að ná eðlilegu útliti þegar brjóst eru endurhönnuð eftir aðgerðir vegna brjóstakrabbameins. Lýtalæknar framkvæma þær aðgerðir fyrst og fremst. Það er þó ekki einhlítt að húðflúrsmeðferð sé eina aðferðin í þessum tilvikum.

Húðflúrsmeðferð hefur komið til tals á fundum samninganefndar heilbrigðisráðuneytisins og lýtalækna. Þar hefur komið fram að lýtalæknar hafa fengið húðflúrsmenn til að framkvæma meðferðirnar á stofum lýtalækna ef konur hafa sérstaklega óskað eftir því. Ljóst er að meðferðin er ekki alveg hættulaus þar sem uppfylla verður ströngustu kröfur um hreinlæti á viðkvæmum líkamshluta auk þess sem meðferðaraðilinn er ekki heilbrigðisstarfsmaður.

Viðræðum samninganefndar við lýtalækna lauk á þann hátt að nefndin treysti sér ekki til að gera samning um þennan meðferðarþátt þar sem of mörg vafaatriði eru á ferðinni.

Í fyrsta lagi að Tryggingastofnun gerir ekki samning um aðgerðir sem ekki eru framkvæmdar af viðurkenndu heilbrigðisstarfsfólki.

Í öðru lagi að ísetning litarefna í húð sem þarf að endurnýja með jöfnu millibili krefst umhverfisskurðstofulæknis.

Í þriðja lagi að aðgerðin er fremur fegrunar- en lýtaaðgerð og lýtur ekki að betra heilbrigði.

Síðan bar svo við að tilboð barst frá hjúkrunarfræðingi sem fengist hefur við húðflúrsmeðferðir um að taka að sér framkvæmd þessara aðgerða. Samninganefnd átti nokkra fundi með þeim aðila ásamt umboðsmanni hans en verðhugmyndir þeirra voru svo fjarri öllu lagi að ekki þótti verjandi að semja um það að svo stöddu.