131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr offitu barna.

326. mál
[13:46]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem fyrirspurnin hefur fengið og eins fyrir svör hæstv. ráðherra. Ég hvet hæstv. ráðherra að standa dyggan vörð um Lýðheilsustöðina sem hefur verið falið þetta mikilvæg verkefni því að það mun kosta að halda utan um það og stuðla að þeim rannsóknum sem verður að gera samhliða því átaksverkefni sem verið er að fara í, sem á ekki að kalla átaksverkefni heldur markmið til langs tíma. Við erum í raun ekki að gera neitt annað en að framfylgja heilbrigðisáætlun okkar og taka fastar á ákveðnum þætti.

Það er mikilvægt að taka á aukinni þyngd og offitu barna því að mataræði á unga aldri og hegðun hefur mótandi áhrif á neyslu og heilsu komandi ára. Það er bara svo einfalt. Ég ítreka þetta með rannsóknirnar. Það verður að rannsaka hvaða þættir í umhverfinu stjórna neyslu barna, hvort það eru auglýsingar, heimilisvenjur eða skólinn. Það þarf allt að stuðla að þessu, ekki bara Lýðheilsustöð og þeir starfsmenn sem vinna með sveitarfélögunum, það þarf að vera sameiginleg samræming og samstillt átak, eins og verðlækkun á hollustuvörum og stuðningur við menningartengda hreyfingu. Þetta þýðir aukinn stuðning til sveitarfélaganna. Þetta þýðir líka breytingu á aðalnámskrá grunnskóla að það séu meiri möguleikar og áhersla á hreyfinguna og þetta mun kosta en skila sér til langrar framtíðar.