131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum.

345. mál
[13:50]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól á hinu háa Alþingi til að grennslast fyrir um það hvernig ríkisstjórnin hyggist framfylgja þingsályktun sem var samþykkt á hinu háa Alþingi á síðasta löggjafarþingi, fyrir rétt tæpu ári.

Þetta var þingsályktun um samvinnu Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2003, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að vinna að aukinni samvinnu í heilbrigðismálum á Vestur-Norðurlöndum og leita leiða til að löndin geti samnýtt krafta sína. Lagt er til að heilbrigðisyfirvöld gefi árlega út skýrslu um samstarfið og þau verkefni sem sameiginlega verður ráðist í.“

Að þessari þingsályktunartillögu stóðu allir þingmenn sem eiga sæti í þingmannadeild Vestnorræna ráðsins, hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Hjálmar Árnason, Einar Oddur Kristjánsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir og sá sem hér stendur.

Tillagan var samþykkt í framhaldi af ráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var í Ilulissat á Grænlandi sumarið 2003, nánar tiltekið í ágúst. Þar var fjallað um heilbrigðismál í þessum þremur löndum, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi og kom mjög margt afskaplega áhugavert fram. Ég var á þessari ráðstefnu og ég man að það sló mig töluvert að fá upplýsingar um það til að mynda hversu slælegt ástandið er í heilbrigðismálum á Grænlandi, þar eru lífslíkur ungs fólks þær lægstu sem við þekkjum á norðurhveli jarðar liggur mér við að segja. Einhvers staðar las ég að um 30% Grænlendinga falla frá áður en þeir ná þrítugsaldri. Það eru sem sagt ungabörn og yngra fólk sem fellur frá í stórum stíl. Þarna er mikið um alls konar vandamál, sjálfsmorð, smitsjúkdóma, kynsjúkdóma og annað þess háttar. Undanfarin ár hefur farið að bera mjög á sjúkdómum tengdum reykingum.

Grænlendingar hafa mikinn áhuga á því að leita samstarfs við okkur í heilbrigðismálum. Þarna er læknaskortur og skortur á hjúkrunarfræðingum svo það sé nefnt. Færeyingar létu í ljós mikinn áhuga á því að eiga samstarf við okkur á sviði lækninga eða heilbrigðismála varðandi flóknari sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma og fram kom á þessari ráðstefnu mjög mikil vilji til að reyna að samnýta betur heilbrigðisþjónustu í þessum þremur nágrannalöndum sem eiga þó svo margt sameiginlegt. Það er skoðun mín að þarna hljóti að vera hægt að gera miklu betur og þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn sem ég tilgreindi áðan til hæstv. heilbrigðisráðherra.