131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum.

345. mál
[13:53]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Suðurk., Magnús Þór Hafsteinsson, spyr hvernig ríkisstjórnin hyggist framfylgja þingsályktun um samvinnu Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum sem samþykkt var á 130. löggjafarþingi. Umrædd ályktun var samþykkt sl. vor frá Alþingi með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins um heilbrigðismál frá árinu 2003. Í þingsályktuninni er ríkisstjórninni falið í samstarfi við landstjórnir Færeyja og Grænlands að vinna að aukinni samvinnu í heilbrigðismálum á Vestur-Norðurlöndum og leita leiða til að löndin geti samnýtt krafta sína. Heilbrigðisyfirvöldum var jafnframt falið að gera reglulega grein fyrir samstarfinu og þeim verkefnum sem sameiginlega yrði ráðist í.

Ísland hefur ásamt Færeyjum og Grænlandi tekið um árabil þátt í sameiginlegu verkefni á sviði fjarlækninga. Má þar nefna verkefni á vegum Norðurskautsráðsins og verkefni í tengslum við norrænu ráðstefnuna um fjarlækningar sem haldin er annað hvert ár.

Undanfarin ár hafa Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar ásamt aðilum í Norður-Noregi tekið þátt í fjarlækningaverkefni sem miðar að því að þróa heildstæða heilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur á Norður-Atlantshafi. Því verkefni lauk fyrr á þessu ári og var styrkt af NORA eða Norrænu Atlantsnefndinni sem var stofnuð á sviði byggðamála á norðvestursvæði Norðurlanda. Á lokafundi verkefnisins sem haldinn var í Færeyjum á sl. sumri var lagt til að áfram yrði unnið að þessari þróun með áherslu á skipulag nauðsynlegrar þjónustu í landi og með fræðslu fyrir sjómenn.

Í framhaldi af fundi Vestnorræna ráðsins sumarið 2003 var í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Ósló í október sama ár haldinn fundur ráðherra og embættismanna landanna. Þar var rætt um að kannaðir yrðu möguleikar á því að gera samning um að Íslendingar tækju við sjúklingum frá Færeyjum í hjartaaðgerðir og í framhaldi af því var Landspítala – háskólasjúkrahúsi falið að upplýsa Færeyinga um kostnaðarhlið málsins og gæði þjónustunnar. Það kom í ljós í framhaldi af þeim samskiptum að ekki var talinn grundvöllur fyrir því af hálfu Færeyinga að taka upp samstarf á þessu sviði.

Á árinu 1997 var gerður samningur milli Grænlands og Íslands um að Íslendingar skyldu sinna bráðatilfellum frá Grænlandi. Landspítali – háskólasjúkrahús hefur tekið á móti sjúklingum frá Grænlandi undanfarin ár en þó í minna mæli en upphaflega var gert ráð fyrir. Í bréfi frá grænlenskum heilbrigðisyfirvöldum til heilbrigðismálaráðuneytisins sem barst á sl. ári var óskað eftir fundi til að ræða aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu landanna og fara yfir hvernig samningurinn hefur reynst. Tók heilbrigðismálaráðuneytið vel í þá málaleitan. Fyrirhugaður fundur um málið sem vera átti sl. sumar á Íslandi féll hins vegar niður þar sem grænlenski heilbrigðisráðherrann og embættismenn hans áttu ekki heimangengt. Heilbrigðisráðuneytið skipulagði síðan tveggja daga heimsókn fyrir ráðherrann og ráðuneytisstjórann í byrjun janúar sl. en honum var frestað á síðustu stundu vegna slæmra veðurskilyrða frá Grænlandi. Nú hefur verið ákveðið að ráðherrann og ráðuneytisstjórinn komi til Íslands þann 16. febrúar nk. og hefur dagskrá með fundum og heimsóknum á stofnanir verið skipulögð dagana 17.–18. febrúar.

Virðulegi forseti. Í framhaldi af formlegum og óformlegum viðræðum sem farið hafa fram milli embættismanna þjóðanna og þeirra sem stýra málaflokknum í löndunum hefur heilbrigðisráðuneytið nú í hyggju að kanna betur möguleika á víðtækara samstarfi í heilbrigðismálum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að kortleggja vandlega hvort raunverulegar forsendur séu fyrir frekari samvinnu á þessu sviði áður en lengra er haldið. Næsti sameiginlegi fundur norrænu heilbrigðismálaráðherranna verður einmitt haldinn í Færeyjum næsta sumar og í tengslum við þann fund hyggst ég beita mér fyrir sérstökum fundi þeirra sem stýra heilbrigðismálum á vestanverðum Norðurlöndum í því skyni að fá samstöðu um framkvæmd könnunar í samræmi við ályktun Alþingis og tilmæli Vestnorræna ráðsins.