131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum.

345. mál
[14:03]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta mál. Ég tek undir að þörf er á meiri og betri heilbrigðisþjónustu á Grænlandi. Eins og ég sagði í svari mínu þá hef ég ákveðið að taka það mál upp við grænlenska heilbrigðisráðherrann, hvernig hægt er að fylgja betur eftir því samkomulagi sem þá var undirskrifað. Ég var reyndar ekki byrjaður í ráðuneytinu þegar það var gert á sínum tíma en því miður hefur það ekki gengið eftir eins og menn vonuðust til þótt samstarf milli landanna hafi verið á ýmsum sviðum, t.d. í sjúkraflugi.

Gott dæmi um hvernig þessir hlutir geta þróast í umræðunni er sá mikli áhugi sem vart var í Færeyjum á að skipta við Landspítala – háskólasjúkrahús varðandi hjartaaðgerðir. Spítalinn fór yfir þau mál, sendi fast tilboð en þeir komust að því að þeir fengu betri þjónustu í Danmörku, frá gamalli tíð. Reyndar urðu stjórnarskipti í millitíðinni og voru komnir nýir menn við stjórnvölinn. En sú stjórn sem fyrir sat hafði mikinn áhuga á þessu. Það er mikil nauðsyn á að fara yfir þessi mál með ráðherrum landanna. Ég hyggst gera það á næsta ráðherrafundi, þá tökum við upp framkvæmd þingsályktunarinnar og þá skýrslugerð sem okkur er ætlað að gefa um þessi mál. Ég tel einboðið að gefa hana út í samræmi við þingsályktunina.