131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Komur á heilsugæslustöðvar o.fl.

253. mál
[14:17]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir upplýsandi svör hans, og þingmönnum öðrum fyrir þátttöku í þessari umræðu. Mér finnast fyrir mitt leyti þær upplýsingar sem koma fram í svari ráðherra mjög upplýsandi. Það er ekki óeðlilegt að ákveðin fjölgun verði á komum á heilsugæslustöðina almennt, 6,2% segir ráðherrann. Er það aukin þjónustuþörf? Fjölgun íbúa? Mér finnast þetta ekki óeðlilegar tölur á milli ára.

Það sem er hins vegar sláandi er, eins og hefur verið dregið fram hér í þessum ræðustól, þessi geysilega fjölgun á síðdegisvaktirnar. Þegar ráðherrann upplýsir síðan hver munurinn er á kostnaði fyrir sjúklinga sjálfa að koma á síðdegisvakt og dagvaktina veltir maður fyrir sér hvort við getum einhvern veginn breytt þessu. Þrátt fyrir mun meiri kostnað fyrir einstaklinginn, fyrir sjúklinginn, fyrir fjölskylduna að koma á síðdegisvaktina virðist fólk kjósa það. Með síðdegisvöktunum vorum við fyrst og fremst að bæta aðkomuna, reyna að koma í veg fyrir að fólk sækti inn á bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss og gefa kost á að mæta þörfum þeirra sem eru á vinnumarkaði og barna í skóla. Það sýnir sig að þörfin er þetta mikil. Þó svo að gjaldtakan sé svona mismunandi og þetta sé miklu dýrara velur fólk eftir sem áður þennan kostinn.

Það sem mér finnst líka sláandi í þessu er að miðað við þessa miklu fjölgun á heilsugæsluna og á Læknavaktina dregur eftir sem áður ekki úr komum á Landspítala – háskólasjúkrahús, á bráðadeildina þar. Ég vildi beina þeim tilmælum, þeirri ósk, til hæstv. heilbrigðisráðherra að það færi fram greining á því hvaða komur þetta eru. Það kann allt eins að vera að skýring hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur sé rétt. Ég held að það sé bara miklu flóknara en svo og mér finnst full ástæða til að fá greiningu á þessum komum á Landspítalann. Af hverju stafa þær og í hversu mörgum tilvikum eru þetta erindi og þarfir sem má leysa innan heilsugæslunnar?