131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Varðveisla gamalla skipa og báta.

428. mál
[14:25]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa athyglisverðu fyrirspurn. Hún hljóðar á þann veg:

Hvað líður undirbúningi tillagna um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem hafa menningarsögulegt gildi, sbr. ályktun Alþingis frá 9. maí 2000?

Í samræmi við þessa þingsályktun skipaði menntamálaráðuneytið nefnd sem í sátu Þorgeir Ólafsson sem var formaður og fulltrúi menntamálaráðuneytisins, Ágúst Georgsson, fulltrúi Þjóðminjasafnsins, Hulda Lilliendahl var fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins og Guðbrandur Jónsson var fulltrúi Félags fornbátaeigenda. Nefndin fundaði nokkrum sinnum og átti einnig viðræður við m.a. fulltrúa Siglingastofnunar.

Í minnisblaði frá árinu 2002 lagði nefndin hugmyndir sínar fyrir þáverandi menntamálaráðherra til að fá úr því skorið hvort nefndin ætti að halda áfram að útfæra hugmyndirnar nánar eða hvort leita ætti nýrra leiða.

Tillögur nefndarinnar voru í helstu dráttum eftirfarandi:

a. Heimilt verði að friðlýsa gamla báta í neyðartilvikum.

b. Leita þurfi álits skipavarðveislunefndar um stórvægilegar breytingar, förgun eða sölu gamalla báta úr landi, t.d. öllum sem smíðaðir eru fyrir 1940.

c. Í þjóðminjalögum verði nánari ákvæði um meðferð og varðveislu gamalla báta og skipsflaka.

d. Stofnaður verði skipavarðveislusjóður með framlögum úr ríkissjóði og lágu gjaldi á alla haffæra báta.

e. Skipavarðveislunefnd verði sett á laggirnar til að sjá um ofangreind efni.

f. Eigendum gamalla báta verði gert auðveldara að hirða um þá með lækkun opinberra gjalda gegn því að notkun bátanna verði takmörkum háð (sumarsiglingar, ekki í atvinnuskyni o.s.frv.).

Hugmyndir þessarar nefndar taka að nokkru mið af norskum lögum, einkum hvað varðar ákvæði um friðlýsinguna. Slíkar friðlýsingar munu samkvæmt okkar heimildum hvergi vera heimilar nema í Noregi. Skipavarðveislunefnd og störf hennar væru þá sniðin eftir húsafriðunarnefnd en ekki væri gert ráð fyrir eins miklum umsvifum. Víða í nágrannalöndum okkar njóta eigendur merkra báta fríðinda hvað snertir opinber gjöld og viðhald bátanna og mun til að mynda Evrópusambandið vera að undirbúa reglur í þeim efnum.

Í lok ársins 2002 bað ráðuneytið Þjóðminjasafnið að kanna hvort fiskiskip í löndum Evrópusambandsins sem ætlunin er að varðveita á menningarsögulegum forsendum geti hlotið úreldingarstyrk. Samkvæmt gildandi reglugerð Evrópusambandsins frá 1999 er heimilt að veita úreldingarstyrk til menningarsögulegrar varðveislu á fiskiskipum. Um er að ræða ýmiss konar undanþágu frá reglum um greiðslu á úreldingarstyrk til fiskiskipa sem undir venjulegum kringumstæðum þarf að eyða. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hefur hins vegar reynst afar erfitt, eiginlega bara mjög erfitt, að fá greiddan styrk til varðveislu á fiskiskipum samkvæmt þessari Evrópusambandsreglugerð. Þannig hefur aðeins eitt fiskiskip verið varðveitt á þessum forsendum í Svíþjóð og afar fá í Danmörku.

Skipaverndunarfólk á Norðurlöndunum og í Bretlandi er sammála um það að reglur Evrópusambandsins varðandi úreldingu fiskiskipa stuðli almennt að eyðingu þeirra. Litið er á þetta frekar sem vandamál meðal skipaverndunarfólks þrátt fyrir þessa undanþágu sem reglugerð Evrópusambandsins veitir og ég fór yfir áðan. Þessar úreldingarreglur Evrópusambandsins virðast frekar leiða til eyðileggingar á fiskiskipum og ég hef m.a. líka heimildir fyrir því að í haust hafi úreldingarstyrkurinn á hvert brúttótonn í Svíþjóð verið hækkaður í 5 millj. kr. Verndunarsinnar hafa þá skoðun að hugsanlega muni þessi hækkun hafa í för með sér enn frekari eyðingu skipa en var í fyrra. Þá var styrkurinn upp á 1,8 millj. á tonn. Samkvæmt upplýsingum mínum voru 20 skip höggvin í Svíþjóð, þar af mjög margir gamlir trébátar. Það er að mörgu að hyggja, hæstv. forseti, og ég er með þessar tillögur til sérstakrar skoðunar, og þá ekki síst í ljósi þess að ég hef ákveðið að fram fari endurskoðun á þjóðminjalögum.