131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Varðveisla gamalla skipa og báta.

428. mál
[14:30]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem til að lýsa því yfir að mér finnst ákaflega sorglegt hve lítið hefur gerst í þessum málum á undanförnum árum og hversu mikið sinnuleysi stjórnvöld, sem hljóta að bera verulega ábyrgð, hafa sýnt því að bjarga gömlum bátum og skipum frá glötun.

Tíminn vinnur svo sannarlega ekki með okkur í þessu máli og má víða finna skip sem eru fyllilega þess virði að varðveita sem eru við það að eyðileggjast. Allt of mörg skip hafa glatast að eilífu vegna þess að menn höfðu ekki burði til þess að taka sér tak og reyna að bjarga þeim.

Í annan stað hefur það líka sýnt sig að þó skipum hafi verið bjargað grotna þau niður þrátt fyrir það. Skýrasta dæmið um það er kútterinn á Akranesi sem er orðinn afskaplega sorgleg sjón þar sem hann hefur dúsað á landi í nálega 30 ár.