131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Varðveisla gamalla skipa og báta.

428. mál
[14:34]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir efnismikið svar sem kemur þó seinna en eðlilegt hefði verið, því fram kom í máli hæstv. ráðherra að minnisblað nefndarinnar er frá árinu 2002 og síðan hefur verið ýtt á málið víða að, m.a. frá Félagi íslenskra safna og safnmanna. Aðalfundur þess félags, sem haldinn var 10. nóvember 2004, ályktaði og lagði til við menntamálaráðherra að framhald yrði á störfum nefndarinnar og er greinilegt að vitneskja hefur ekki verið til staðar í félaginu um að nefndin væri búin að skila af sér. Í ályktun Félags íslenskra safna og safnmanna segir, með leyfi forseta:

„Félagið leggur til við menntamálaráðherra að framhald verði á störfum nefndar um sjóði til varðveislu skipa og báta sem hafa menningarsögulegt gildi, sem stofnuð var í kjölfar þingsályktunar frá 9. maí 2000. Lýsir fundurinn yfir fullum stuðningi við stofnun slíks sjóðs og væntir þess að vinnu við undirbúning hans verði hraðað eftir fremsta megni.“

Það hefur því verið ýtt á ráðherrann frá fleiri en einum stað og er það vel.

Ég treysti því að hæstv. ráðherra láti hendur standa fram úr ermum, skoði ummæli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar sem hefur gefið okkur ástæðu til að skoða Þróunarsjóðinn með tilliti til þess hvort þar séu fjármunir til reiðu í málefni af þessu tagi. Mér finnst skipta verulegu máli að það sé gert og sömuleiðis að haft sé náið samráð við Þjóðminjasafnið í þessu tilliti því við skulum ekki gleyma því að Þjóðminjasafnið, sem er höfuðsafn þjóðminjavörslunnar, rekur Sjóminjasafn Íslands. Í gegnum það eru tengsl sjóminjasafnanna á landinu til staðar.

Að lokum lýsi ég því yfir að yfirlýsing hæstv. menntamálaráðherra er athyglisverð um að hún ætli að láta fara fram endurskoðun á þjóðminjalögunum. Við getum beðið spennt í þessum sal eftir að (Forseti hringir.) fá þau inn á borð okkar.