131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Varðveisla gamalla skipa og báta.

428. mál
[14:36]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið í umræðunni, að menningararfur okkar sem tengist m.a. skipum og varðveislu gamalla skipa er mjög þýðingarmikill fyrir okkur og samfélag okkar. Það er því alveg ljóst að hlúa þarf vel að þessum málum, m.a. í ljósi þeirrar endurskoðunar sem fer fram á þjóðminjalögum, þá er einmitt lag til að setja þessi mál í fastari skorður og betri horfur en nú er, það verður að segjast alveg eins og er.

Ég vil taka fram varðandi Þróunarsjóð sjávarútvegsins að ég er að skoða það mál sérstaklega. Ég held að það skipti mjög miklu máli af því að það hafa verið eyrnamerktir peningar samkvæmt upplýsingum mínum einmitt í þennan þátt, að þeir renni í þann þátt sem þeir áttu og eiga að renna.

Mér finnst þýðingarmikið að heyra að það er samhljómur á meðal þingmanna. Ég ætla ekki að reyna að setja einhverja flokkadrætti á milli manna. Það er samhljómur á meðal þingmanna að gera betur í þessum efnum. Það verður líka að taka fram það sem vel er gert og þingið hefur staðið ágætlega að fjármögnun til varðveislu ákveðinna báta, en ég tek undir með hv. þingmanni að það þarf skýrari ramma og skýrari stefnu hvað þetta varðar.