131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Menntunarmál geðsjúkra.

100. mál
[14:52]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er einmitt það sem verið er að gera með því sem ég var að að svara hér áðan, verið er að reyna að koma þessum málum í fastan farveg. Meðal annars er verið að setja þetta verkefni og þetta úrræði inn í heildarsamninginn hjá Fjölmennt þannig að Fjölmennt komi til með að sinna öllum fræðslumálum fatlaðra, hvort heldur það eru geðfatlaðir eða aðrir sem eiga við fötlun að stríða.

Það er því verið að koma þessum málum í ákveðinn og fastan farveg. Menn eru líka að sjá að þetta úrræði sem um er að ræða skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlaða einstaklinga til þess að taka áfram næstu skrefin inn í skólakerfið til að viðhalda fræðslu sinni og skólagöngu. Það skiptir mjög miklu máli í öllu þessu samhengi að reyna að auðvelda geðfötluðum einstaklingum að taka þessi skref sem oft og tíðum geta verið mjög þungbær fyrir þá, auðvelda þeim að taka þessi skref inn í samfélagið sem við búum í.