131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Mismunandi þarfir drengja og stúlkna í grunnskólum.

430. mál
[15:02]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi kom inn á það að nú er þingflokkur Samfylkingarinnar að heimsækja grunnskóla landsins. Vorum við í gær eins og hv. þingmaður nefndi, í Hjalla, barnaskóla hjallastefnunnar hjá Margréti Pálu og var það ákaflega merkileg og lærdómsrík heimsókn. Ég held að við höfum öll hrifist mjög af því starfi sem þar fer fram. Ég er á því að grípa þurfi til býsna róttækra aðgerða í skólakerfinu almennt til að mæta mismunandi þörfum drengja og stúlkna því þær virðast vera ákaflega ólíkar.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hefði skoðað það að innleiða með tilheyrandi hliðaraðgerðum það að beita miklu meiri kynjaskiptingu í grunnskólum landsins líkt og gert er í hjallastefnunni, ekki endilega með sama hætti að sjálfsögðu, en nýta slíkar aðferðir til að mæta mismunandi þörfum og aðskilja kynin mun meira en gert er nú.