131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

355. mál
[15:15]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessar spurningar.

Núgildandi lög um útlendinga tóku gildi þann 1. janúar 2003. Það var fyrst með samþykkt þeirra laga eins og fram hefur komið sem sú stefna var mörkuð að áður en varanlegt búsetuleyfi yrði gefið út skyldi umsækjandi hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Á þeim lagagrundvelli hefur dómsmálaráðuneytið sett ákvæði um íslenskukennslu umsækjenda um dvalarleyfi inn í reglugerð um útlendinga, nr. 53/2003. Í reglugerðina er sett sú regla að umsækjandi um búsetuleyfi hafi lokið námskeiðum í íslensku sem sé að lágmarki 150 stundir. Þá er í reglugerðinni ákvæði um lágmarkstímasókn og undanþágu fyrir þá sem standast íslenskupróf og fyrir þá sem af líkamlegum eða andlegum ástæðum geta ekki tekið þátt í slíku námskeiði.

Af hálfu dómsmálaráðuneytisins hefur verið litið svo á að nýta beri þá þjálfun og reynslu sem safnast hefur fyrir hjá þeim sem kenna útlendingum íslensku, en fjölmargir aðilar hafa kennt útlendingum íslensku eins og kunnugt er. Má þar nefna framhaldsdeildir víða um land, Námsflokka Reykjavíkur, Fjölmenningu og fleiri. Fyrsta skrefið til að hrinda í framkvæmd þessum ákvæðum laganna fólst í því að halda námskeið fyrir þá kennara sem halda vilja námskeið fyrir útlendinga sem hyggjast sækja um búsetuleyfi, þar sem jafnframt var leiðbeint um samræmt námsefni.

Unnið hefur verið að frekari undirbúningi varðandi þennan þátt málsins í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands. Samþykkt var í fjárlögum fyrir árið 2005 eins og þingmenn vita að veita 5 millj. kr. í verkefni af þessum toga. Samið hefur verið um það við Kennaraháskóla Íslands að hann taki þetta verkefni að sér og hafa farið fram viðræður á grundvelli þessarar samþykktar Alþingis um fjárveitingu við Kennaraháskólann á undanförnum dögum um að fyrir mitt þetta ár liggi fyrir námskrá, tillögur um námsefni, tillögur um þær kröfur sem á að gera til þeirra sem veita kennslu á þessum námskeiðum og aðra þá þætti sem gera það kleift að gera ákveðnar og skýrari kröfur en unnt hefur verið að gera miðað við þau ákvæði í reglugerð og lögum sem við búum við. Ég tel að það hafi verið ákaflega mikilsvert skref sem var stigið á síðasta ári í samvinnu dóms-, mennta- og fjármálaráðuneyta að vinna að því að fá fagmenn í háskóla til að vinna að þessu verki og er Kennaraháskóli Íslands að vinna að því núna.

Á meðan unnið hefur verið að því að skipuleggja menntun leiðbeinenda hafa dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun litið svo á að rétt væri að stilla kröfum til þeirra námskeiða sem umsækjendur um búsetuleyfi hafa sótt í hóf og hefur ekki verið gerð krafa um að dómsmálaráðuneytið hafi samþykkt námskeiðshaldara sérstaklega. Hefur í framkvæmd verið látið við það sitja að umsækjendur skili vottorðum um íslenskunám í tilsettum tímafjölda frá starfandi skólum og námsflokkum án þess að eftir því sé gengið að viðkomandi námskeiðshaldarar gerðu ítarlega grein fyrir því námi sem um er að ræða.

Einnig hefur verið samið við Fjölmenningu um að halda stöðupróf, auk þess sem Fjölmenning hefur haldið námskeið fyrir leiðbeinendur. Hafa íslenskupróf fyrir útlendinga verið haldin víða um land. Þannig hefur verið leitast við að koma til móts við þarfir þeirra útlendinga sem hafa lært íslensku og sækja vilja um búsetuleyfi á meðan unnið er að því að koma hér upp hópi viðurkenndra leiðbeinenda sem getur sinnt þessu verkefni til frambúðar.

Ég vil benda á að í flestum löndum Evrópu hefur sú krafa orðið háværari að undanförnu að þeir sem þar setjast að til langframa tileinki sér þá færni sem nauðsynleg er til að geta orðið virkir þátttakendur í samfélaginu og það sé fyrir miklu að hér sé ekki tjaldað til einnar nætur heldur sé markvisst unnið að því að byggja upp hæfan hóp sérmenntaðra kennara til að takast á við þetta verkefni.

Einnig hefur komið fram, eins og þingmenn vita, í öllum könnunum að þeir útlendingar sem hér búa leggja ríka áherslu á að fá tækifæri til að læra íslensku. Yfir 90% þeirra telja að þeir eigi að fá tækifæri til þess og vilja í raun læra íslensku. Við áttum okkur á því líka þegar við lítum til reynslu annarra þjóða að það er lykilatriði fyrir okkur eins og þær þjóðir að auðvelda útlendingum að tileinka sér tungu okkar Íslendinga þannig að þeir verði virkir þátttakendur í samfélaginu. Þar sem sú leið er ekki farin er hætta á að fólk einangrist og minnihlutahópar myndist. Það er ekki stefna okkar eins og margoft hefur komið fram á Alþingi og við viljum að allir fái notið sín sem best í okkar þjóðfélagi. Til þess að gera það þurfa menn að kunna íslensku.