131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

355. mál
[15:24]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft ákaflega þörfu máli. Það er auðvitað mjög mikilvægt að sú stefnumótun sem hér hefur verið tekin upp að reyna að koma í veg fyrir að útlendingar einangrist í málhópum sínum, ef hægt er að orða það svo, og að þeir nái tengslum við þjóðfélagið, gangi fram sem markvissast.

Ég vil líka draga það sérstaklega fram að ég tel að í hópi þeirra erlendu ríkisborgara sem hér hafa sest að sé falin mikil þekking og mikil reynsla sem geti fært íslensku þjóðfélagi mikinn ábata þegar fólk nær tökum á málinu og tökum á því að eiga eðlileg samskipti í þjóðfélaginu.

Ég lít svo á að eftir miklu sé að slægjast fyrir íslenskt þjóðfélag að ná þessum málum fram með þeim hætti að útlendingar öðlist lágmarksþekkingu og samskiptaformið við íslensk stjórnvöld geti orðið eðlilegt.