131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þjónusta við innflytjendur.

356. mál
[15:53]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Mig langar fyrst að nefna það, af því að það var mjög umdeilt mál í sölum Alþingis á sínum tíma þegar við samþykktum útlendingalögin og það að lögbinda að útlendingar skyldu sækja námskeið í íslensku og það ríkir mikil jákvæðni gagnvart þeirri ráðstöfun. Fólk telur það vera til hagsbóta og að ef skyldan væri ekki fyrir hendi telja menn að þeir og ættingjar þeirra mundu síður sækja þessi námskeið. Ég tel að það sé alveg hárrétt.

Á sínum tíma var jafnframt talið að ákveðin rök væru fyrir því að þetta skyldi kosta útlendinga, að sækja þessi námskeið, og þeir kynnu þá betur að meta þau. Ýmis rök voru nefnd fyrir því. En jafnframt, af því að þjónustan átti að kosta, var lögð áhersla á að gjaldið yrði hóflegt. Kannski er það þess vegna að 150 stundirnar eru ekki nema 150 stundir. Spurningin er hvort 150 stundirnar duga. Ég veit að t.d. í Noregi eru þetta 1.100 stundir, innflytjandanum að kostnaðarlausu.

Það er því alla vega ljóst að rétt væri að láta meta hvort það er raunhæft að reikna með því að 150 stundir dugi útlendingi til að öðlast þá færni í íslensku að hann geti aðlagast samfélaginu. Það er jú markmiðið með þessu öllu.

Ég þakka ráðherranum fyrir ágætt svar hans. Mér sýnast málin í góðum höndum. Ráðherrar þriggja ráðuneyta eru að reyna að ná saman til að dekka allt þetta svið. Hvað varðar íslenskukennsluna þá er ég að hugsa um að strika hana út af lista þessara þriggja ráðherra. Nú sýnist mér að boltinn sé á milli menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra af því að menntamálaráðherra ræður Kennaraháskólanum og fær fjárveitingu til að þróa kennslufræðina í kringum starfið uppi í Kennaraháskóla. Hæstv. félagsmálaráðherra segir með réttu að námsframboð, námsefni og annað séu á ábyrgð menntamálaráðherra. Ég held því að eftir því sem þessu starfi vindur fram nái menn betri lendingu í því og sníði af því agnúana.