131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Iðnaðarframleiddar transfitusýrur í matvælum.

403. mál
[16:10]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa jafnmikilli óánægju með þetta svar hæstv. umhverfisráðherra eins og ánægju með fyrra svar ráðherra við fyrri fyrirspurn.

Danir byrjuðu á því að setja sér það takmark að leyfa ekki meira en 1% af transfitusýrum í viðbiti og í mat en fengu ekki undirtektir hjá Evrópusambandinu með það. Nú hafa þeir sett reglugerð um hámark transfitusýra í mat og þeir banna hærra innihald en þetta og það skal vera vel merkt. Ef það er 1% eða minna má merkja vöruna að hún sé transfitusýrulaus. Það var álitið að þessi reglugerð mundi á einhvern hátt verða heftandi í viðskiptalegu tilliti fyrir Dani en það hefur sýnt sig að svo er ekki. Aðrar þjóðir og framleiðendur á þessari vöru hafa litið til Dana og lagað sig að þessum kröfum.

Þetta er manneldissjónarmið, miklar rannsóknir eru í gangi og allt bendir til þess að þetta litla magn sem er í matvælum í dag hafi mjög skaðleg áhrif á heilsu manna. Mér finnst mjög mikilvægt að bíða ekki eftir því að Evrópusambandið setji einhver tilmæli. Tilskipun ESB mun koma og við getum gert þetta rétt eins og Danir og verið þar í nokkrum fararbroddi. Miðað við það frjálsræði sem er í Bandaríkjunum hafa rannsóknir sýnt það mikil áhrif af transfitusýrum að Bandaríkjamenn munu frá því árinu 2006 setja þá kröfu á framleiðendur að þeir tilgreini hversu mikið magn af transfitusýru sé í matnum. Er það meira en þeir eru vanir að gera.