131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[10:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að flytja Alþingi skýrslu um umfang skattsvika og hve vel hefur verið að henni staðið. Aðdragandi hennar var tillaga til þingsályktunar sem flutt var af nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar og Alþingi samþykkti í maí 2002. Í greinargerð með þingsályktuninni sem Alþingi samþykkti er því lýst að á umliðnum árum hefði ýmislegt breyst í atvinnulífi og skattumhverfi fyrirtækja sem gæfi ástæðu til að kanna umfang skattsvika. Ekki var síst lögð áhersla á að með auknu fjármagnsflæði milli landa og sívaxandi alþjóðavæðingu hefðu skapast möguleikar á að skrá fyrirtæki erlendis og reikningsfæra umsvif fyrirtækja á erlendum vettvangi, m.a. til skattahagræðis og undanskota frá skatti. Þessi skýrsla staðfestir það. Hún varpar glöggu ljósi á hvernig skipuleg skattsvik hafa aukist og nýjar skattsvikaleiðir bæst við.

Hún sýnir líka að skattalöggjöfin er að sumu leyti gloppótt og býður bókstaflega upp á að fyrirtæki geti komist undan eðlilegum skattgreiðslum til samfélagsins. Það er grafalvarlegt mál sem taka verður á af fullri hörku ef fyrirtæki misnota frelsið og þá bættu samkeppnisstöðu sem þeim hefur verið búin í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Í skýrslunni er því t.d. blákalt haldið fram að íslenskir skattaðilar nýti sér skattaparadísir og ýmiss konar lágskattasvæði til að koma undan tekjum sem sæta eiga skattlagningu hér á landi. Ekki verður annað liðið en að á þessu verði tekið af fullri hörku. Það eru fyrst og fremst einstaklingar sem bera meginþungann af skattgreiðslum til ríkisins eða um 90%. Hlutur fyrirtækja er ekki mikill fyrir þó ekki bætist við að þeir hafi óeðlilegar undankomuleiðir til að færa hagnað sinn úr landi til að komast hjá skattgreiðslum.

Þessi skýrsla staðfestir líka að mikil lækkun á skatthlutfalli og skattgreiðslum fyrirtækja hafa ekki minnkað undanskot eins og stjórnarliðar halda gjarnan fram. Þvert á móti hafa verið fundnar nýjar skattsvikaleiðir til undanskota. Það er óþolandi að skattalögin bjóði stórfyrirtækjum og fjármagnseigendum upp á skattasmugur þannig að íslenskt samfélag verði af tugum milljarða kr.

Skýrslan sýnir líka vel hve mikill ávinningur er af öflugu skatteftirliti þegar áætlað er að allt að 35 milljarðar tapist af skattfé landsmanna vegna skattsvika en það er samsvarandi fjárhæð og fer til að reka allt skólakerfið í landinu, framhaldsskóla, grunnskóla og háskóla. Því er eftir miklu að slægjast og að stjórnvöld og Alþingi taki af festu á skattsvikum og lagi reglur og lagaumhverfi að þeim tillögum sem fram koma í skýrslunni. Ekki þarf síður að búa vel að skatteftirlitinu en þingflokkur Samfylkingarinnar hefur á hverju ári flutt tillögur um aukið fjármagn til skatteftirlits, enda hefur verið sýnt fram á að það skilar sér margfalt aftur í ríkiskassann. Þessi úttekt sem nú liggur fyrir gefur færi á að endurmeta aðferðir, skattrannsóknir og eftirlit, nú þegar varpað hefur verið ljósi á helstu ástæður undandráttar frá skatti og að hve miklu leyti má rekja hann til skattalaga annars vegar og skattframkvæmdar hins vegar. Tillögurnar eru róttækar og sumar umdeildar en við verðum að geta náð samstöðu um það á Alþingi að loka öllum skattsvikaleiðum og skattasmugum sem nú er að finna í gloppóttri löggjöf. Í skýrslunni kemur fram að verði gripið til þeirra aðgerða í skattframkvæmd og skattalöggjöf sem þar koma fram þá megi draga verulega úr skattsvikum.

Það er af mörgu að taka í þeim skattsvikaleiðum sem nefndar eru í skýrslunni og vil ég kalla fram frekari afstöðu hæstv. fjármálaráðherra til þeirra tillagna sem ég tel hvað mikilvægast að hrundið verði í framkvæmd.

Fram kemur í skýrslunni að heimildir eru nýttar til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum til skattsniðgöngu. Ókostirnir við heimild á skattlagningu söluhagnaðar snýr einmitt að útlöndum. Með því að fjárfesta í erlendum félögum, oftar en ekki skattaparadísum eða skattavildarsvæðum, skapast möguleiki á að viðkomandi komist að fullu undan skattlagningu á söluhagnaði, t.d. með milligöngu eignarhaldsfélaga. Það er ekki hægt að líða, virðulegi forseti.

Algengt er að einstaklingar eða fyrirtæki selji eða leggi hlutabréf sem þeir eiga inn í eignarhaldsfélög sem þeir hafa stofnað erlendis. Einnig getur félag með mikið yfirfæranlegt rekstrartap innleyst mikinn söluhagnað og endurfjárfest í erlendum bréfum og fært stofnverð þeirra niður eða talið fram á bókfærðu verði. Komist það upp með það er skattlagning söluhagnaðarins glötuð og tapið gengur á móti síðari tekjum. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé reiðubúinn til að afnema heimildir til að fresta skattlagningu á söluhagnaði, a.m.k. ef um er að ræða að fresturinn fáist með kaupum á hlutabréfum í erlendum fyrirtækjum, einkum fjármálafyrirtækjum. Ég undirstrika að margar þjóðir skattleggja uppsafnaðan hagnað af eignum sem fluttar eru úr landi. Ég kalla eftir viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra við því.

Sem upplagt tilefni skattsvika er líka nefnt í skýrslunni að Ísland sé eitt örfárra landa sem ekki leggi skatt á vexti sem greiddir eru úr landi. Þessi gloppa í skattkerfinu nýtist ekki síst þeim sem setja sig niður í skattaparadísum, þar sem innlend fyrirtæki stofnsetja dótturfyrirtæki og leggja í það fé sem dótturfyrirtækin lána síðan íslenska móðurfyrirtækinu. Vextirnir dragast frá skattstofni íslenska fyrirtækisins og lækka skattgreiðslu þeirra. Íslenskir aðilar sem setja niður eignarhaldsfélög í skattavinjum kaupa líka íslensk verðbréf og fá árlega vexti sem eru skattfrjálsir og gera enga grein fyrir þessum tekjum eða greiða skatta af þeim. Ég spyr, virðulegi forseti, hæstv. fjármálaráðherra einnig að því hvort hann sé reiðubúinn að taka upp skatta á vexti sem greiddir eru úr landi eins og vexti innan lands eða þá að skilyrða skattfrelsið við lönd sem við höfum tvísköttunarsamninga við og gefa fullar upplýsingar til íslenskra skattyfirvalda um tekjur og eignir Íslendinga, m.a. félög í eigu íslenskra aðila. Ég tel afar mikilvægt, virðulegi forseti, að fá fram afstöðu hæstv. fjármálaráðherra til þessa við þessa umræðu.

Væntanlega fer þessi skýrsla til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd. Þá greiðir auðvitað fyrir störfum nefndarinnar ef við fáum afstöðu hæstv. ráðherra til mikilvægra atriða og tillagna í skýrslunni.

Í skýrslunni kemur fram að fjórðungur allra einkahlutafélaga skilar ekki skattframtölum og segir ríkisskattstjóri að stór hluti einkahlutafélaga sé ekki í alvörustarfsemi heldur fyrst og fremst ætlað að auðvelda mönnum að svíkja undan skatti. Fram kemur að stofnun einkahlutafélaga séu líka nýtt til að notfæra heimildir til frestunar á söluhagnaði sem skapi möguleika til frádráttar vegna vaxtagjalda. Sömuleiðis kemur fram að einkahlutafélög geti fært skattalegar skyldur sínar yfir á fyrirtæki sem þau bera takmarkaða ábyrgð á og litlar kröfur eru gerðar um hlutafé. Spyrja má því hvernig hæstv. fjármálaráðherra ætlar að bregðast við þessari gagnrýni. Ástæða er til að nefna að það er ekki síst mismunandi skattprósenta eftir uppruna tekna sem býður heim alls konar undandrætti frá skatti, t.d. tengdum einkahlutafélögum.

Það er líka óþolandi sem fram kemur í skýrslunni að enn skuli tíðkast að eigendur fyrirtækja færi einkaneyslu sína sem kostnað á fyrirtækin og ekki síður að hluti launa, t.d. bónus eða kaupréttur, sé ekki gefinn upp til skatts og hluthöfum veitt vaxtalaus lán sem ekki eru gerð upp. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að grípa til sérstakra aðgerða gegn þessu. Ég hélt, virðulegi forseti, að við værum komin lengra í allri framkvæmd og eftirliti með sköttum þannig að ekki væri hægt að komast upp með slíkar skattsvikaleiðir sem ég nefndi, þ.e. að eigendur fyrirtækja færi einkaneyslu sína sem kostnað á fyrirtæki og að hluti launa, t.d. bónus eða kaupréttur, sé ekki gefið upp til skatts.

Ég undirstrika, virðulegi forseti, að það er alvarleg brotalöm í skattframkvæmd að svona gróf mismunun sé milli hins almenna launamanns og svo stjórnenda þeirra fyrirtækja sem nýta sér skattasmugur til að greiða hlutfallslega minna til samfélagsins en fólki sem starfar hjá fyrirtækjunum.

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að leggja verulega áherslu á við endurbætur á skattkerfinu það sem fram kemur í skýrslunni um að auka ábyrgð endurskoðenda. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé í undirbúningi í ráðuneyti hans að því er þann þáttinn varðar. Sömuleiðis að færa saksókn ákæruvalds í skattsvikamálum til embættis skattrannsóknarstjóra og málsforsvar í dómsmálum um ágreining í skattamálum til embættis ríkisskattstjóra en það eru sennilega um tíu ár síðan ég setti fram nauðsyn slíkrar breytingar á skipulagi meðferðar í skattsvikamálum.

Í lokin vil ég nefna tvær róttækar tillögur sem ég tel hvað mikilvægast að komi til framkvæmda auk þeirra aðgerða að skattleggja vexti sem greiddir eru úr landi og koma í veg fyrir flutninga á óskattlögðum söluhagnaði í erlend hlutabréf. Í fyrsta lagi að komið verði á sérstökum sérhæfðum eftirlitsdeildum sem hafi skatteftirlit með stórfyrirtækjum, ekki síst fjármálafyrirtækjum með mikil erlend umsvif. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi þessa tillögu í framsögu sinni áðan og vildi ég gjarnan fá fram frekari afstöðu hans til tillögunnar sem ég tel afar mikilvæga og eftirtektarverða í þeim tillögum sem starfshópurinn hefur sett fram.

Í öðru lagi legg ég áherslu á að lögfest verði afdráttarlaus ákvæði um skyldu banka og fjármálastofnana til að láta skattyfirvöldum í té allar upplýsingar um eignir og tekjur viðskiptamanna og þeirra sem annast fjársýslu fyrir fyrirtæki. Þar snýr vandamálið ekki að vaxtatekjum af bankainnstæðum því vegna staðgreiðslunnar veldur það varla miklu tekjutapi hjá ríkissjóði. Annað mál gildir um verðbréf og einhver hlutabréf en þar er örugglega um verulegar fjárhæðir að ræða sem ekki eru taldar fram. Ríkisskattstjóri hefur upplýst m.a. í efnahags- og viðskiptanefnd að íslenskir bankar og fjármálafyrirtæki séu að verða helsti þröskuldur í þróun skattframkvæmdar til betri þjónustu og réttari álagningar skatta vegna skorts á upplýsingagjöf til skattyfirvalda. Í skattsvikaskýrslunni kemur fram að Ísland ásamt Sviss og Lúxemborg er í hópi tíu ríkja af rúmlega 30 sem ekki krefjast sjálfkrafa skýrslugjafar banka til skattyfirvalda. Fyrir liggur t.d. að þegar Svíar tóku upp slíka upplýsingaskyldu fyrir 15–20 árum bötnuðu skattskil vegna fjármagnstekna um hvorki meira né minna en 20–30%. Ég býst við að það geti orðið umdeilt á hv. Alþingi að taka upp þessa tillögu og lögfesta afdráttarlaus ákvæði um skyldu banka og fjármálastofnana til að láta skattyfirvöldum í té allar upplýsingar um eignir og tekjur viðskiptamanna en ég tel að þetta sé afar brýn leið til þess að auka á skattskil og að eðlilegar fjármagnstekjur skili sér með eðlilegum hætti í ríkissjóð, enda er það svo að önnur lönd eins og ég nefndi hafa tekið upp slíka upplýsingaskyldu fyrir einum eða tveimur áratugum með þeim afleiðingum að skattskil bötnuðu verulega vegna fjármagnstekna. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra um afstöðu hans til þessarar upplýsingaskyldu banka við skattyfirvöld og að komið verði á sérstökum sérhæfðum eftirlitsdeildum sem hafi skatteftirlit með stórfyrirtækjum, einkum þeim sem eru með erlend umsvif.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra svari þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hans þegar hann tekur til máls síðar í umræðunni. Það þarf þegar að hefjast handa við að hrinda tillögum skattsvikanefndar í framkvæmd og bæta alla skattframkvæmd og setja í lög þau ákvæði sem spornað gætu við skattsvikum. Í húfi er, virðulegi forseti, tugir milljarða króna sem skattgreiðendur hljóta að gera kröfu til að skili sér til að bæta lífskjör og velferð í landinu.

Ég vil í lokin um leið og ég ítreka þakklæti mitt til hæstv. fjármálaráðherra fyrir framlagningu þessarar skýrslu leggja áherslu á að skýrslunni verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar, og þessari umræðu þá frestað, og efnahags- og viðskiptanefnd fjalli ítarlega um skýrsluna og þær tillögur sem fram koma þar til úrbóta, bæði að því er varðar löggjöf og alla skattframkvæmd og skili að lokum niðurstöðum sínum og tillögum sem fyrst til umræðna aftur inn í þingið. Við þá yfirferð í efnahags- og viðskiptanefnd verður vonandi góð sátt um að reyna að ná samstöðu um þær mörgu tillögur sem hér koma fram, virðulegi forseti, þannig að hægt sé að bæta skilin og skattar skili sé með eðlilegum hætti til að bæta okkar góða samfélag.