131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[11:43]

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Sú skýrsla sem er hér til umræðu er auðvitað afar mikilvægt innlegg í þá umræðu um framkvæmd skattalaga hér á landi sem stöðugt þarf að eiga sér stað. Þetta er samantekt af hálfu þeirra embættismanna sem gegna lykilhlutverki í því að framfylgja lögunum og bregðast við þegar eitthvað fer úrskeiðis. Það skiptir miklu að fá fram sjónarmið þeirra og taka þau til umræðu á vettvangi Alþingis.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga að niðurstöður nefndarinnar og niðurstöður skýrslunnar eru í töluvert meira jafnvægi en stundum mátti ráða af þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem átti sér stað í kjölfar útgáfu hennar í desember. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, sérstaklega í ljósi þess að það er mikilvægt að umræða um skattamál, skattsvik og skylda þætti séu í jafnvægi hér í þinginu, menn leitist við að greina vandamálin og leysa þau en gæti sín á því að fara ekki út í stóryrðakapphlaup eins og stundum vill verða.

Allir gera sér ljóst að skattsvik eru stórfellt vandamál, bæði í hagkerfi okkar og annarra landa. Vandamálið kemur auðvitað fram í því að ríkið verður af mikilvægum skatttekjum til að standa straum af sameiginlegum útgjöldum. Skattborgararnir sitja ekki við sama borð, sumir borga minna en þeim ber meðan aðrir borga meira. Loks varðandi atvinnustarfsemi sérstaklega leiða skattsvik svörtu sauðanna til þess að samkeppnisstaða fyrirtækja sem eru í eðlilegum rekstri og hafa allt sitt uppi á borðinu verður erfiðari en ella. Skattsvik hafa þess vegna neikvæð áhrif á atvinnulífið í landinu. Þetta er nauðsynlegt að undirstrika.

Menn eru sammála um þetta, hvort sem menn eru á því að skattar eigi almennt að vera háir eða lágir. Við sem berjumst fyrir lágum sköttum gerum jafnframt kröfu um að allir sitji við sama borð gagnvart skattalögunum og skattframkvæmd og einstakir menn taki það ekki upp hjá sjálfum sér að skammta sér lægri skatta en þeim ber að greiða lögum samkvæmt.

Sameiginleg viðleitni Alþingis og stjórnvalda hlýtur því að beinast að því að vinna gegn skattsvikum. Þeir sem þekkja sögu mála vita líka að lagasetning á Alþingi hefur beinst í þann farveg á undanförnum árum. Menn hafa leitað leiða til þess að loka fyrir glufur í skattkerfinu, leitað leiða til þess að bregðast við skattsvikum og miðað við niðurstöður skýrslunnar hefur það tekist ágætlega á ýmsum sviðum. Það er rétt að halda því til haga að í ýmsum tegundum hefðbundinna skattsvika eins og kallað er virðist hafa dregið úr brotastarfseminni, það er mikilvægt að hafa í huga.

Það er líka full ástæða til að gefa því gaum sem fram kemur í skýrslunni að breytt viðskiptaumhverfi, alþjóðavæðing og aukið frjálsræði hefur í för með sér ákveðna hættu á nýjum tegundum brota. Í þeirri umræðu þurfum við auðvitað að gæta okkar á því að líta ekki á þá þróun sem slíka sem vandamál, líta ekki á alþjóðavæðinguna sem vandamál, líta ekki á aukið frjálsræði sem vandamál og líta ekki á útrás íslenskra fyrirtækja sem vandamál. Þær breytingar sem hafa átt sér stað á íslensku viðskiptalífi sérstaklega á undanförnum áratug eru auðvitað jákvæðar fyrir Íslendinga, fyrir íslenskt hagkerfi og samfélagið allt. Þetta er jákvæð þróun.

Hins vegar gera hinar breyttu aðstæður það líka að verkum að í skattframkvæmd kunnum við að standa frammi fyrir nýjum vandamálum og það ber að sjálfsögðu að gefa þeim atriðum gaum sem að er vikið í skýrslunni að þessu leyti. Það hafa án efa komið fram ýmsir agnúar sem við þurfum að sníða af en viðbrögðin mega hins vegar ekki vera með þeim hætti að við missum af þeim ávinningi sem frjálsræðið getur fært okkur. Við verðum að finna jafnvægið milli þess að bregðast við brotastarfsemi hinna fáu og tryggja um leið hagfellt umhverfi fyrir allan þorra manna sem fer eftir reglunum og hefur engan ásetning um að brjóta þær.

Það eru nokkur atriði til viðbótar sem mér finnst ástæða til að leggja áherslu á. Það er auðvitað nauðsynlegt að greina á milli skattsvika annars vegar og löglegrar viðleitni til að draga úr skattgreiðslum hins vegar. Þetta á ekki síst við um atvinnulífið þar sem skattaleg skipulagning er eðlilegur hluti af stjórnun og rekstri fyrirtækja. Við megum ekki gleyma því að bæði hérlend og erlend skattalög gefa mönnum í mörgum tilvikum svigrúm til að velja mismunandi leiðir sem hafa í för með sér mismunandi skattlagningu. Það er mjög varasamt og villandi að tala um slíka skipulagningu fyrirtækjareksturs í sömu andrá og menn ræða um skattsvik, skattalagabrot. Það er mikilvægt að greina þarna á milli.

Hið sama á við vegna orða sérstaklega síðasta hv. ræðumanns um ráðgjöf í skattamálum. Það er mikilvægt að rugla ekki saman eðlilegum störfum sérfræðinga á þessu sviði, endurskoðenda, lögmanna og fjármálaráðgjafa við að ráðleggja fyrirtækjum um skattskil, að rugla því ekki saman við aðstoð einhverra aðila úr þeim hópi við að svíkja undan skatti. Menn verða að greina á milli eðlilegrar starfsemi, sem ég fullyrði að á sér stað í langflestum tilvikum, og hugsanlegrar brotastarfsemi einstakra aðila. Menn verða að gæta sín í umræðunni að tala ekki um atvinnulífið, atvinnugreinar eða atvinnustarfsemi í heild eins og um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Menn verða bara að passa sig á því að með því móti eru þeir að taka svörtu sauðina og yfirfæra brot þeirra á allan þorrann sem hefur engan ásetning til annars en að fylgja reglunum.

Þá vil ég nefna í sambandi við alþjóðavæðinguna að skattaleg samkeppni milli ríkja er staðreynd og að mörgu leyti afar jákvæð. Í skattalegri samkeppni felast t.d. tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Við verðum að horfa á að skattalegir þættir eru meðal þeirra atriða sem ráða því hvar fyrirtæki kjósa að hafa starfsemi og fyrir lítið og sveigjanlegt hagkerfi eins og okkar Íslendinga þá liggja í þessu tækifæri. Við stöndum höllum fæti í samanburði við aðrar og stærri þjóðir með stærri markaði eða þær sem liggja nær stórum mörkuðum að ýmsu leyti. Atriði eins og stærð hagkerfisins og fjarlægð frá mörkuðum og annað gerir það að verkum að við stöndum verr en sumir aðrir. Þegar við eigum í samkeppni við aðrar þjóðir um það hvar fyrirtæki staðsetji sig eru skattamálin meðal þeirra þátta þar sem við getum náð forskoti.

Ég er alveg sannfærður um að sú stefnubreyting sem átti sér stað með því að færa almennan skatt á fyrirtæki niður í 18% hafði afar jákvæð áhrif á samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Ég mótmæli þeim fullyrðingum sem fram komu að það hafi ekki verið um jákvæða þróun að ræða. Ég bendi líka á, ef menn glugga í tölur um skattskil, að 18% skattþrepið hefur skilað ríkissjóði miklu meiri tekjum en gömlu skattþrepin sem voru allt upp í 50%. Ég mótmæli því þeim fullyrðingum sem fram hafa komið í dag að 18% skattþrepið, stórfelld lækkun á tekjuskatti fyrirtækja hafi ekki skilað okkur ávinningi.

Ég mótmæli líka því sem kom sérstaklega fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að engin ástæða væri til þess að ætla að lægri skattþrep drægju úr skattsvikum. Ég veit ekki hvar hann finnur þeim orðum sínum stað í skýrslunni, en á þeim eina stað í skýrslunni þar sem sérstaklega er vikið að þeim þætti segir einmitt, með leyfi forseta:

„Á síðustu árum hafa skattar verið lækkaðir nokkuð hérlendis. Almennt viðhorf er að því lægri sem skattprósenta er og ásamt því að skattstofn sé breiður, þeim mun líklegra er að skattundanskot séu minni. Hérlendis hafa nokkur skref verið stigin í þessa átt, m.a. með lækkun skatthlutfalls af lögaðilum. Er talið að sú lækkun hafi eitthvað dregið úr skattsvikum.“

Fullyrðingar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um hið gagnstæða eiga því enga stoð í skýrslunni. (Gripið fram í.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon veit að ein meginniðurstaða skýrslunnar er að dregið hafi úr ýmiss konar hefðbundnum skattsvikum, virðisaukaskattssvikum og tekjuskattssvikum, jafnvel úr svartri atvinnustarfsemi sem þó er, eins og fjármálaráðherra benti á í ræðu sinni áðan, sennilega það sem umfangsmest er í skattsvikum hérlendis, stærstu upphæðirnar liggja sennilega í svartri atvinnustarfsemi þegar á heildina er litið.

Eins og ég hef fjallað um í máli mínu er önnur meginniðurstaða skýrslunnar að í breyttu viðskiptaumhverfi felist ákveðnar nýjar hættur sem þurfi að bregðast við og alveg ljóst að við á hinu háa Alþingi og í hv. efnahags- og viðskiptanefnd munum ræða þá þætti. Auðvitað munum við ræða þá þætti og þær tillögur sem fram hafa komið af hálfu nefndar fjármálaráðherra um þetta efni. Við þurfum að fara yfir þær tillögur sem þar eru lagðar fram og við þurfum að vega og meta hverjar horfa til framfara og hverjar kunna að hafa einhverjar aðrar afleiðingar en þeim er ætlað.

En aðalatriðið er þetta: Við þurfum að sjálfsögðu að bregðast við því þegar skattalög eru brotin. Við þurfum að hafa öflugt eftirlitskerfi sem er fært um að fylgjast með því að skattalögum sé fylgt og við þurfum að hafa refsivörslukerfi sem bregst við þegar skattalög eru brotin.

Við verðum jafnframt að gæta þess að þegar við bregðumst við brotum hinna fáu séum við ekki að þrengja svo að hagsmunum og starfsskilyrðum hinna mörgu að þjóðarhag sé stefnt í voða vegna þess að atvinnustarfsemi flytjist úr landi eða atvinnustarfsemi nái ekki að blómgast með þeim hætti sem hún ella ætti möguleika á.