131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[12:00]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í Íslandssögunni sem við lærðum í skóla kom fram að ein af ástæðum þess að Ísland byggðist fyrir meira en 1100 árum hafi verið sú að landnámsmenn voru tregir til þess að borga Noregskonungi háa skatta.

Skýrsla starfshópsins sem hér er til umræðu bendir til þess að kannski sé þetta viðhorf enn ríkt í þjóðarsálinni. Samkvæmt henni er umfang skattsvika hér á landi gríðarlega mikið og stór hluti landsmanna tekur þátt í nótulausum viðskiptum eða skýtur hluta tekna sinna undan skatti. Höfundar skýrslunnar áætla að tap ríkisins og sveitarfélaga vegna skattsvika geti verið 8,5–11,5% af heildartekjum ríkisins og sveitarfélaga. Þetta eru gríðarlega háar upphæðir, 30–40 milljarðar kr. á árinu 2003, fjárhæð af svipaðri stærðargráðu og væntanlegt söluverð Landssímans eins og hér kom fram í síðustu ræðu. Slíkar fjárhæðir mætti að sjálfsögðu nýta til þess að lækka skattbyrði landsmanna eða þá ráðast í brýn verkefni í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum, til að greiða niður skuldir ríkisins eða hvaðeina. Hér er því um mikið alvörumál að ræða.

Starfshópur um umfang skattsvika fór yfir alla skattaframkvæmd hérlendis og er rétt að halda því til haga að ein meginniðurstaða nefndarinnar er sú að skattsvik vegna vantalinna tekna kunni að hafa minnkað og skil á virðisaukaskatti batnað. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni og bendir til þess að þótt niðurstöður nefndarinnar um umfang skattsvika hér á landi séu vissulega sláandi hafi nokkur árangur náðst á undanförnum árum. Með því að halda þessu til haga hér er á engan hátt verið að gera lítið úr þeim vanda sem við er að etja því að hann er vissulega mjög mikill.

Með gerð þessarar skýrslu hefur verið unnið mikilvægt starf til þess að greina vandann og bent er á þau verkefni sem takast þarf á við í stefnumótun og lagasetningu svo að vinna megi gegn skattsvikum. Starfshópurinn setur fram ýmsar athyglisverðar tillögur og vekur athygli á vandamálum sem ekki hafa verið áður til mikillar umræðu hér á landi, t.d. því að skipulögð skattsvik hafa aukist og nýjar leiðir til skattsvika hafa opnast, einkum vegna erlendra samskipta. Þess vegna þurfi að gera breytingar á lögunum sem beinast að því að koma í veg fyrir að íslenskir skattaðilar nýti sér skattaparadísir og lágskattasvæði til að koma undan tekjum sem skattleggja á hér á landi. Styrkja þurfi upplýsingaöflun skattyfirvalda einnig til þess að hægt verði að eiga betur við þennan vanda. Skattalöggjöfin þurfi að duga betur til varnar gegn skattsvikum. Styrkja þurfi skattaframkvæmd og laga betur að nýjum og breyttum aðstæðum, efla skatteftirlit og skattrannsóknir og bæta starfsskilyrði skattyfirvalda.

Sérstaklega eru athyglisverðar ábendingar nefndarinnar um að breyttar aðstæður í atvinnu- og viðskiptalífi hafi skapað ný tækifæri til skattsvika og að ráðgjöf um hvernig koma megi tekjum undan skatti hafi aukist. Gera þarf ábyrgð ráðgjafa sem veita vafasama og óábyrga skattaráðgjöf skýrari en nú, sem og persónulega ábyrgð eigenda og forsvarsmanna fyrirtækja.

Nefndin telur að með því að grípa til fjölmargra ráðstafana sem fjallað er um í skýrslunni megi draga verulega úr skattsvikum og skila ríkissjóði miklum fjárhagslegum árangri. Þannig megi einnig bæta starfsskilyrði og samkeppnisstöðu heiðarlegs atvinnureksturs og auka jafnræði meðal fólksins í landinu.

Þessar tillögur nefndarinnar hljóta að verða teknar til vandlegrar umfjöllunar á vettvangi stjórnsýslunnar og síðan hér á Alþingi því að það er verkefni okkar að tryggja það að skattkerfið sem Íslendingar búa við sé í senn réttlátt og skilvirkt og sjái til þess að allir greiði þann skerf til samneyslunnar sem lög kveða á um. Skattsvik af því umfangi eða í þeim mæli sem hér er um að ræða særa réttlætiskennd fólks.

Virðulegur forseti. Ég tel samt að við getum ekki vænst þess að sá vandi sem 30–40 milljarða skattsvik á ári eru verði leystur eingöngu af stjórnvöldum og Alþingi með hertum lögum, bættu eftirliti og hertum refsingum. Þær upplýsingar sem eru einna athyglisverðastar í skýrslunni eru niðurstöður skoðanakönnunar sem starfshópurinn lét gera. Þrátt fyrir að sú könnun virðist staðfesta það mat að skattskil fari batnandi og vilji til skattsvika fari minnkandi eru niðurstöður sláandi. Hvorki meira né minna en 16% landsmanna könnuðust við það að hafa á árinu 2003 greitt fyrir vöru eða þjónustu sem líklega var ekki gefin upp til skatts. 28,5% landsmanna þekkja einhvern það ár sem boðin var vara eða þjónusta sem ekki átti að gefa upp til skatts. 55,9% landsmanna segjast mundu þiggja tekjur sem ekki þyrfti að gefa upp til skatts. 9% játa í könnuninni að hafa haldið tekjum undan skatti á árinu 2003.

Þessar niðurstöður sýna að skattsvik eru ótrúlega útbreidd hér á landi. Það eru sennilega engar ýkjur að tala um þau sem víðtækt þjóðfélagsvandamál. Til að sigrast á því vandamáli skiptir vissulega miklu að bæta löggjöf og herða eftirlit. Þegar allt kemur til alls þarf þó meira til því að vandinn liggur ekki aðeins í lögunum og eftirlitinu, heldur ekki síst í viðhorfum sem koma fram hjá þjóðinni í þessari könnun.

Einn mikilvægasti lærdómurinn af þessari skýrslu er kannski sá að sú arfleifð landnámsmannanna að hafa efasemdir um skattlagningu lifir enn góðu lífi hér á landi. Við þurfum að leita leiða í gegnum opinbera umræðu og fræðslu til að breyta megi þessum viðhorfum og ýta undir borgaralega vitund gagnvart því að standa samfélaginu skil á sköttum og skyldum.

Virðulegi forseti. Ég vil að endingu þakka nefnd hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa skýrslu. Hún er mjög fróðleg og mjög þarft innlegg í umræðuna, bæði hér á Alþingi og í samfélaginu öllu um meðferð skattamála og hún er mjög leiðbeinandi um það hvernig við getum tekið á skattsvikum til framtíðar.