131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[12:07]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir málefnalega umræðu hér á þessum morgni um þetta mikilvæga málefni.

Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna sem fram hafa komið í máli þingmanna. Tveir hv. þingmenn hafa nefnt að staðið hafi á upplýsingum eða útreikningum af hálfu Hagstofu eða Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands eins og með vissum hætti má lesa út úr skýrslunni. Þar er hins vegar um misskilning að ræða. Ég hef hér í höndum minnisblað frá Hagstofu Íslands um þetta efni sem sjálfsagt er að veita efnahags- og viðskiptanefnd aðgang að. Þar kemur fram að Hagstofan hefur ekki látið í té mismun milli framleiðsluuppgjörs sem svo er kallað og ráðstöfunaruppgjörs þjóðhagsreikninga, enda hafi kerfisbundið verið unnið að því að bæta þessi reikningsuppgjör og eyða mun sem á milli þeirra hafi verið. Það er skoðun Hagstofunnar eins og áður Þjóðhagsstofnunar að fyrri skattsvikanefndir hafi dregið allt of víðtækar ályktanir af mismun uppgjörsaðferða við mat á skattsvikum. Ég vil bara að þetta komi hér fram. Menn voru kannski ekki að gera mjög mikið úr þessu máli hér en ég vil undirstrika þetta.

Ýmsar spurningar hafa komið fram um einstök atriði sem nefnd eru í þessari skýrslu. Auðvitað verður vel farið yfir allar tillögur. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi tvennt sérstaklega, spursmálið um frestun söluhagnaðar og skattlagningu á vaxtagreiðslur úr landi. Fyrir hvoru tveggju eru má segja sögulegar skýringar. Það þarf auðvitað að gæta þess að ef farið verður út í breytingar á þessu, sem ég vil ekkert útiloka, þarf að gæta þess að það hafi ekki óeðlilegar aukaverkanir. Við munum að undanþága á skattlagningu vaxta úr landi var ekki síst hugsuð til þess að koma í veg fyrir að lánstraust Íslands eða ríkisins rýrnaði með því að skattur væri lagður á greiðslur af lánum sem ríkið greiddi til útlanda. Það er fleira þess háttar sem þarf að fara vel yfir. Auðvitað er líka rétt að til skjalanna hefur komið misnotkun í þessum efnum sem liggur fyrir skjalfest og það þarf að finna þarna hið rétta jafnvægi til að geta komið í veg fyrir misnotkun en jafnframt óeðlilegar hliðarverkanir af slíkum breytingum.

Ég vil segja það að lokum, herra forseti, að auðvitað er pólitískur ágreiningur um það á Íslandi og í þjóðfélaginu hve mikil skattheimta á að vera, hvort skattar eigi að vera háir eða lágir. Það hefur komið fram ítrekað, við þurfum ekki að deila um það hér í þessari umræðu, en það er ekki pólitískur ágreiningur um það að menn eigi að borga þá skatta sem Alþingi ákveður að leggja á. Annað á ekki að viðgangast og mönnum er engin vorkunn, hvorki fyrirtækjum né einstaklingum, að greiða þá skatta eins og nú er búið að koma skattheimtunni fyrir hér. Eins og skatthlutföll eru orðin lág, bæði á fyrirtæki og einstaklinga, er mönnum engin vorkunn að standa skil á sköttum sínum. Það á að taka hart á öllum svikum.