131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[12:10]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það veldur mér vonbrigðum hve óljós og loðin svör hæstv. ráðherra eru um það hvaða tillögum hann hyggist fylgja eftir af þeim 24 tillögum sem skattsvikanefndin setur fram. Mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra tali um það hér að það sé t.d. erfitt að fylgja eftir þessum tillögum um frestun skattlagningar á söluhagnaði þegar um er að ræða að frestun fæst með kaupum á hlutabréfum í erlendum fyrirtækjum. Hér er um skattsvikaleið að ræða sem þarf að loka. Þarna er um misnotkun að ræða en margar þjóðir hafa skattlagt uppsafnaðan hagnað í eignum sem fluttar eru úr landi. Ég spyr: Af hverju getum við ekki farið þá leið?

Mér finnst hæstv. ráðherrann líka óljós varðandi skattlagningu á vöxtum sem greiddir eru úr landi. Þetta hafa aðrar þjóðir gert og ég skil ekki af hverju við getum ekki gert þetta og/eða að skilyrða skattfrelsi við lönd sem við höfum tvísköttunarsamning við og gefa fullar upplýsingar til íslenskra skattyfirvalda.

Ég saknaði þess líka að heyra ekki skoðun hæstv. ráðherra á því að lög verði sett um upplýsingaskyldu banka við skattyfirvöld og að komið verði á sérstökum sérhæfðum eftirlitsdeildum sem hafi skatteftirlit með stórfyrirtækjum. Þetta er gífurlega stór tillaga og róttæk um upplýsingaskyldu banka en það hefur komið fram að af 30 löndum veita 20 skattyfirvöldum sjálfkrafa slíkar upplýsingar. Það hefur líka komið fram að skattskil Svía varðandi fjármagnstekjuskattinn voru bætt um 20–30% þegar þessari upplýsingaskyldu var komið á.

Þess vegna ítreka ég nú óskir mínar til hæstv. ráðherra um að hann tali skýrar í þessum efnum varðandi þessa þrjá mikilvægu þætti. Ég gæti vissulega nefnt fleiri en þetta eru grundvallaratriði í skýrslunum sem mér finnst eiginlega ómögulegt að við skiljum við í þessari umræðu án þess að fá skýrari svör frá ráðherranum.