131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[12:12]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svör mín eru hvorki loðin né óljós. Hér erum við ekki með nákvæmar tillögur til að taka afstöðu til. Það verður að hafa í huga að t.d. er verið að tala um að breyta reglum um frestun söluhagnaðar en það er ekki verið að tala um að afnema þann möguleika. Það er verið að tala um að breyta möguleikanum en hversu mikið liggur ekki nein tillaga fyrir um.

Ég segi það bara, við erum opin hér fyrir öllum þessum tillögum. Ég tók afstöðu til nokkurra af þessum 24 tillögum í framsöguræðu minni, annað er til athugunar og þarf að fara betur yfir. Sumt er kannski verr ígrundað en annað. Sumar tillögur þarna eru um skipulagsbreytingar varðandi réttarfarsleg málefni eins og saksóknarvald eða málflutningsumboð til stofnana skattkerfisins sem er mál þess eðlis að fleiri þurfa að koma að slíku en bara fjármálaráðuneytið, þetta er réttarfarslegt málefni. Ég vísa því algerlega á bug að hér sé tekið illa eða með óljósum hætti á hlutum af minni hálfu. Það þarf hins vegar að fara vel yfir þessi atriði.

Varðandi t.d. skattgreiðslur á vexti úr landi liggur alveg fyrir að þar eru sögulegar ástæður fyrir þessum reglum. Hér voru vextir neikvæðir á sínum tíma. Hér var skömmtun á fjármagni og þurfti leyfi til að taka lán í útlöndum. Þetta er að hluta til arfur frá þeim tíma. Auðvitað hafa aðstæður breyst og auðvitað á ekki að líða mönnum það að nota slík ákvæði til að koma sér undan eðlilegum skattgreiðslum. Það er alveg rétt. Það á ekki að líða mönnum það. Það verður líka að gæta þess að afleiðingarnar af slíkri breytingu verði ekki verri en sá vandi sem á að vinna bug á. Um það snýst þetta mál hvað varðar mat á tilteknum breytingum í þessu kerfi.

Hér liggur fyrir góður grunnur til umfjöllunar sem við munum auðvitað fara betur yfir.