131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[12:17]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að ég held að stærsta verkefnið eða a.m.k. stærsta nýja verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum sé að takast á við þetta breytta umhverfi og ýmsar smugur sem menn að finna sér í gegnum tilfærslur á fjármagni og hagnaði og starfsemi milli landa. Hér hafa verið nefndir hlutir eins og undanþága á skattlagningu vaxtagreiðslna úr landi og frestun söluhagnaðar eða aðferð til að fresta skattlagningu hagnaðar með ýmsum aðferðum sem tengjast slíkum flutningum milli landa. Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að okkur hafi vantað allt of lengi á Íslandi skýrar og skilvirkar reglur um samstæðuskattlagningu móðurfélaga og dótturfélaga í ólíkum löndum. Það hefði verið nær á sínum tíma að fara út í slíka vinnu í stað þess að stofna hér til alþjóðlegu viðskiptafélaganna sem varð auðvitað upphafsmönnum þess máls til mikillar háðungar eins og kunnugt er.

Ég tel mjög mikilvægt að efnahags- og viðskiptanefnd fari rækilega yfir tillögur þessarar skýrslu og vinni það í samstarfi við fjármálaráðuneytið og sérfræðingana sem hér hafa lagt hönd á plóginn.

Ég vil sérstaklega inna hæstv. ráðherra eftir afstöðu til tveggja hluta, þ.e. annars vegar áherslna Verslunarráðsins og yfirskriftar viðskiptaþings um 15%-landið Ísland sem ég fullyrði að er algjörlega á skjön við niðurstöður þessarar skýrslu. Ekkert í þessari skýrslu færir fram rök fyrir því að það sé sérstakt kappsmál, a.m.k. ekki í skattalegu tilliti, að halda áfram á þeirri vegferð með tekjuskatta stóru aðilanna niður í ekki neitt.

Í seinna tilvikinu vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra um þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem í vændum er. Er fjármálaráðuneytið að fylgjast með framvindu þess máls og/eða að reyna að beita eitthvað áhrifum sínum í þeim efnum? Hefur hæstv. ráðherra, í ljósi meginniðurstaðna skýrslunnar um að þarna séu hinar nýju og hættulegu smugur, engar áhyggjur af því sem þar er að gerast?