131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[12:52]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegur hluti af því að koma á samkeppnisumhverfi í orkugeiranum að þar komist á svipað skattumhverfi og hjá öðrum fyrirtækjum í landinu og ekki hægt að víkjast undan því.

Orkufyrirtækin eru hins vegar langflest í eigu opinberra aðila og helstu eignir þeirra liggja í orkumannvirkjum og öðrum mannvirkjum í því umhverfi sem hér um ræðir. Menn þurfa þess vegna að búa til einhvers konar upphaf í þessum efnum og hér er unnið að því.

Þó hlýtur að vera umhugsunarefni í þessu samhengi hvernig gefið hefur verið í þessu spili. Þar vil ég nefna til Landsvirkjun. Ríkið á það fyrirtæki með tveimur af stærstu bæjarfélögum í landinu. Þar hafa orðið til umtalsverðar eignir, tuga milljarða virði á þeim tíma sem Landsvirkjun hefur verið rekin í umhverfi þar sem ekki hafa verið borgaðir skattar af starfseminni og nýttar hafa verið auðlindir sem þjóðin á sameiginlega.

Enginn má taka orð mín svo að ég haldi því fram að það eigi að taka þessar eignir af Reykvíkingum og Akureyringum en þetta eru auðvitað mistök hér á Alþingi að svona skuli hafa verið í pottinn búið. Núna, við uppstokkun í raforkuiðnaðinum öllum saman, gefst tækifærið til að rétta þetta af að einhverju leyti, með öðrum eignum sem hafa orðið til á sama tíma. Þar nefni ég t.d. Rarik, sem vel mætti hugsa sér að yrði sérstakt fyrirtæki og rekið í samkeppni í framtíðinni og að önnur sveitarfélög en þau sem notið hafa góðs af því að nýta auðlindirnar á vegum Landsvirkjunar fengju þá reiknaðan eignarhlut í því fyrirtæki, því að auðvitað þarf að koma því í hendur annarra en ríkisins. Það verður enginn alvöru samkeppnismarkaður til ef ríkið ætlar að eiga 90% af öllu saman og steypa því saman í eitt fyrirtæki eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra talaði fyrir í vetur.

Þarna væri hægt að finna ýmsar leiðir en ég hef oft bent á að það þurfi að fara í gegnum þessi málefni, eignarhald á Landsvirkjun, í tengslum við þær breytingar sem hér eru á ferðinni. Ég hvet menn eindregið til að setjast yfir þetta og skoða málið.

Hins vegar tel ég að lagafrumvarpið sem hér liggur fyrir eigi fullkomlega rétt á sér. Ég hef reyndar ekki lesið það gaumgæfilega yfir og skil ekki sumt af því sem ég hef lesið í því. Ég vildi því biðja hæstv. fjármálaráðherra að útskýra fyrir mér 7. gr. þar sem er talað um söluhagnað. En í lok hennar stendur:

„Þegar eignir sem ekki hafa verið endurmetnar samkvæmt II. kafla eru seldar er heimilt að framreikna stofnverð þeirra frá kaupári til ársins 2001 með verðbreytingarstuðli kaupárs og telst söluhagnaður þá mismunur á söluverði og 10% af þannig framreiknuðu stofnverði,“ — sem mér finnst þá vera 90% af framreiknuðu stofnverði.

Er það rétt skilið að söluhagnaður reiknaður með þessum hætti sé 90% af framreiknuðu stofnverði í þeim tilfellum sem svona er að málum staðið? Ég velti því fyrir mér hvort þetta geti verið að svona í pottinn búið. Á hverju byggist það mat að þetta sé sanngjörn niðurstaða um skattálagninguna?

Ég vildi grípa tækifærið, úr því að þetta mál er til umræðu, til að minna enn einu sinni á það að menn hafa ekki sagt neitt um það í sölum Alþingis — þótt ég hafi oft gert tilraun til að fá upplýsingar um það — hvernig þeir ætli að meta stöðuna í framhaldi af því að ríkið leysi kannski Akureyri og Reykjavík út úr Landsvirkjun. Mér hefur fundist að það yrði rétt skref. Kannski getur hæstv. fjármálaráðherra við þessa umræðu upplýst alþingismenn um það hvort það sem hæstv. iðnaðarráðherra lýsti skýrt yfir fyrir skömmu að hún vildi stefna að, þ.e. að því að leysa Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ úr Landsvirkjun og sameina síðan fyrirtæki á orkusviði í eigu ríkisins í eitt gríðarlega stórt fyrirtæki. Getur hæstv. fjármálaráðherra sagt okkur alþingismönnum eitthvað um hvernig það gengur og hvort hann sé sammála þeim áformum hæstv. iðnaðarráðherra.