131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[12:59]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að geyma sér umræðuna til síðari og betri tíma. Þetta svar hef ég fengið í sölum Alþingis í gegnum árin. Ég hef reynt að fá menn til að ræða um málefni Landsvirkjunar, um eignarhlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í henni og hvernig með skuli fara. Á þetta hef ég oft minnst í sölum Alþingis og aldrei fengið nein svör um afstöðu ráðamanna til þess hvernig með eigi að fara.

Ég reyndi þetta líka í vetur í umræðu þar sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra var fyrir svörum. Svörin voru af sama tagi og hjá hæstv. fjármálaráðherra þ.e.: Við tölum bara um þetta seinna.

Mér finnast þetta svo mikilvæg mál að það sé ekki vansalaust að stjórnvöld, ríkisstjórnin, sem þó bauka við þessi mál á bak við tjöldin og upp úr kafinu koma menn eins og Alfreð Þorsteinsson eða einhverjir aðrir og segja frá því, skuli ekki hafa uppi einhverja stefnu sem hægt er að tala um og að menn geti fengið eitthvað að vita. Auðvitað þarf á þessari umræðu að halda. Hér eru gríðarlega mikilvæg mál á ferðinni og menn vita ekki hvað ríkisstjórnin sem nú situr ætlar sér með þessa hluti.

Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með þetta. Mér finnst þetta ekki geta gengið, að svona sé að málum staðið á Alþingi, að ekki fáist umræða um mál af þessu tagi.