131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[13:53]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek ekki þau orð mín aftur að ég tel að heppilegt væri að lífeyrissjóðirnir tækju þátt í fjárfestingum í orkugeiranum. Ég er ekki að tala um allan orkugeirann, vegna þess að það er mjög mikilvægt að greint verði á milli eignarhalds í orkugeiranum og það vantar hreinlega að það gerist. Við sjáum það ekki fyrir okkur, a.m.k. geri ég það ekki, að menn gangi þau skref til baka sem búið er að taka. Það er búið að taka ákvörðun um að koma á þessu fyrirkomulagi og þá þurfa menn að gera það besta sem hægt er úr því. Það verður gert með því að greina á milli þeirra aðila sem eru að framleiða og selja orku og sjá til þess að þannig aðilar verði á markaðnum að þeir geti keppt sín á milli.

Þegar lífeyrissjóðirnir velja sér fjárfestingartækifæri horfa þeir ekki endilega alltaf á daginn í dag. Það eru ekki alltaf til sölu einhver hlutabréf sem hækka á morgun. Menn hljóta að horfa langt fram í tímann í þeim hugmyndum sem þeir hafa um hvernig best sé að fjárfesta fyrir hönd lífeyrisþeganna. Ég efast ekki um að það getur verið góð fjárfesting t.d. í flutningskerfi raforku fyrir lífeyrissjóðina, þó þar sé gjörsamlega afmarkað að hverju menn stefna hvað varðar arðsemi. Ég tel reyndar að það gæti vel komið til greina að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í þeim hluta orkugeirans.