131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[14:19]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðu um það frumvarp sem hér hefur verið flutt, frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja, get ég sagt, a.m.k. fyrir mitt leyti, að þegar maður les hér greinargerðir og annað slíkt með þessu fer maður ósjálfrátt að skjálfa. Það segi ég sérstaklega vegna þess sem m.a. hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur J. Sigfússon, ræddi hér um. Þá vitna ég auðvitað og fer aftur til þess þegar við fórum hér fyrir áramót í gegnum raforkulögin og þau frumvörp tvö sem fylgdu þar með, samanber hið göfuga frumvarp með því fallega heiti „frumvarp til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku“.

Ég átti þá sæti í hv. iðnaðarnefnd. Ég verð að segja alveg eins og er að margt af því sem þar kom fram, áform sem sett voru fram, hugmyndir manna um hugsanlega einhverja hækkun á raforku, 1–2% að hámarki, var ekki alveg út úr kortinu. Svo varð seinna allt vitlaust í fjölmiðlum þegar fulltrúar stóru orkufyrirtækjanna á höfuðborgarsvæðinu ruddust fram og töldu að samþykkt þessara frumvarpa mundi hafa í för með sér 20 og upp í 30% hækkun á höfuðborgarsvæðinu.

Hið göfuga markmið þessara frumvarpa, a.m.k. það sem ég keypti af því ef svo má að orði komast, var jöfnunarþátturinn. Andhverfa við þetta göfuga markmið hefur hins vegar komið algjörlega fram. Þá á ég sérstaklega við þær hækkanir sem komu fram rétt í kringum áramótin þegar lögin voru að taka gildi og jafnvel 10–20 dögum þar á eftir eins og gjaldskráin frá Orkubúi Vestfjarða og gjaldskráin frá Orkuveitu Reykjavíkur sem hafði það í för með sér að Rarik varð að hækka gjaldskrá sína um 20 aura á kílóvattstund. Þið sjáið náttúrlega í hvers konar vitleysisgangi þetta mál er.

Málsmeðferð á því máli — það er ljótt að þurfa að segja það úr hinum virðulega ræðustól Alþingis — er Alþingi til vansa. Því segi ég þetta? Jú, virðulegi forseti, ég margreyndi í iðnaðarnefnd að fá inn til hennar hugmyndir manna um það á hvaða verðgildi flutningslínurnar yrðu lagðar inn í Landsnet. Það var ómögulegt fyrir okkur í iðnaðarnefnd að fá þær tölur fram.

Ég er alveg viss um það, virðulegi forseti, að frá hendi iðnaðarráðuneytisins og þeirra sem voru að sýsla með þessi frumvörp voru þessar tölur þá þegar til en komu ekki til okkar í iðnaðarnefnd.

Ég gerði annað. Við reyndum mikið sem þá sátum í iðnaðarnefnd að fá aðila til fundar við nefndina sem ekki hefðu komið á einhverjum undirbúningsstigum málsins að samningu frumvarpsins. Viti menn, virðulegi forseti, það virtist alveg vonlaust. Við vorum meira að segja komnir í það að reyna að fá óvilhalla að því er manni fannst endurskoðunarskrifstofur. Þá kom í ljós að þær höfðu líka verið með puttana í samningu frumvarpsins. Svo enduðum við í því að fá menn frá að mig minnir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands eða einhverjum deildum innan háskólans. Þá kom enn fremur í ljós, virðulegi forseti, að þeir höfðu líka komið að undirbúningi málsins.

Þessi vinnubrögð eru ófyrirgefanleg, að við skulum samþykkja þetta um miðjan desember sem tók gildi 1. janúar sl. og þá voru menn ekki farnir að gera sér neina grein fyrir því hvernig gjaldskrá þessara orkufyrirtækja yrði. Það er alveg með ólíkindum að við fáum svo nokkrum dögum seinna gjaldskrá upp á 45% hækkun, að vísu Súðarvíkurmegin við það fjall sem ég man nú ekki hvað heitir, hinum megin við fjallið. Á Ísafirði var það allt annað ef við tökum dæmi frá Orkubúi Vestfjarða.

Þetta segi ég aðeins, virðulegi forseti, vegna þess að þótt segja megi að það sé ekkert óeðlilegt að sama skattkerfi sé fyrir alla óttast ég að það sem sett er hérna fram muni koma í hausinn á okkur á svipaðan hátt og ég hef verið að gera að umtalsefni með raforkufrumvarpið og þau tvö frumvörp sem þar fylgdu með.

Hér stendur, virðulegi forseti, á bls. 4 í athugasemdum við frumvarpið þar sem verið er að tala um hugsanlegar skattgreiðslur þessara fyrirtækja, með leyfi forseta:

„Miklar sveiflur hafa verið í afkomu orkufyrirtækjanna á síðustu árum. Þannig voru fimm af sex stærstu orkufyrirtækjunum rekin með tapi á rekstrarárinu 2001 og á árinu 2000 voru þrjú af fyrirtækjunum sex rekin með tapi. Hins vegar voru öll fyrirtækin nema eitt rekin með hagnaði á árinu 1999. Miðað við tölur ársins 2001 virðist eiginfjárstaða stærstu orkufyrirtækjanna mjög traust, eða sem nemur nálægt 100 milljörðum kr. samkvæmt uppgjöri í ársreikningum.“

Það er fyrri hlutinn, virðulegi forseti, sem maður stoppar auðvitað við.

Ég geri mér ekki grein fyrir hvað var svona hagstætt í rekstrarumhverfinu 1999, hvort þetta eru einhverjar reikningstilfærslur út af gengi krónunnar eða stöðu þar, að öll fyrirtækin nema eitt voru rekin með hagnaði árið 1999. Þau hefðu þá væntanlega ef svona ár kemur síðar þurft að greiða skatt árið eftir. Þá er spurningin þessi: Verður það til þess að hækka taxtana árið þar á eftir ef aftur kemur svona ár? Ef einhver hætta er á því, virðulegi forseti, held ég við eigum að bíða og sleppa þessu.

Ég hef samúð með orkunotendum og þá tala ég sérstaklega vegna þeirra aðila sem eiga að fá á sig 10% skellinn, áramótagjöf ríkisstjórnarinnar, þeirra íbúa landsbyggðarinnar sem búa við rafhitun og eiga að taka á sig þessa miklu hækkun. Ætli það sé ekki dálítið farið af 1% tekjuskattslækkuninni sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að hreykja sér af og sjálfstæðismenn með hringferð um landið mót hækkandi sól? Ætli það sé ekki töluvert af 1% tekjuskattslækkuninni nú þegar farið hjá íbúum landsbyggðarinnar sem eiga að taka á sig þessa miklu hækkun? Hún er algjörlega út af korti og það var aldrei talað um hana í meðförum iðnaðarnefndar eða í þinginu þegar við vorum að ræða þau lög sem ég hef hér gert að umtalsefni.

Þetta er algerlega óviðunandi og engan veginn hægt að sætta sig við svona vinnubrögð eins og ég er hér að tala um. Ef einhver minnsta hætta er á því að við þetta frumvarp sem hér er um að ræða, um skattskyldu orkufyrirtækja, gæti hnífurinn komið svo í bakið á notendum eftir x mörg ár er það ekki forsvaranlegt að mínu mati. Nóg er komið af slíku í þessum efnum.

Ég sagði það reyndar þegar hæstv. iðnaðarráðherra flutti hér munnlega skýrslu um hin 15 daga gömlu raforkulög sem þá voru að þetta væri sem rýtingsstunga í bakið á landsbyggðarfólki. Það var að sjálfsögðu rýtingsstunga líka í bakið á okkur alþingismönnum sem samþykktum lögin með göfugu markmiði eins og jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku, eins og eitt frumvarpið hét. Svo kom þetta svo í hausinn á okkur sem búmerang.

Það er ekki plús fyrir iðnaðarráðuneytið að þetta skuli vera svona (Gripið fram í.) og aðallega ráðherra náttúrlega sem líka kemur úr landsbyggðarkjördæmi eins og sá sem kallar hér fram og þeir þingmenn sem eru í salnum núna fyrir utan hæstv. fjármálaráðherra. Hann situr ævinlega hér þegar frumvörp hans eru rædd. Ég hef áður gert það að umtalsefni, mér finnst það til fyrirmyndar og aðrir ráðherrar ættu að taka sér það til eftirbreytni.

Ráðherra iðnaðarmála, sem keyrði þetta frumvarp í gegn, sá um þau gögn sem komu til iðnaðarnefndar til rökstuðnings með fulltrúum iðnaðarráðuneytis sem oft sátu inni, vildu sitja oftar inni, en kannski fyrir dugnað þáverandi formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, fengu ekki alltaf að sitja inni.

Þetta vildi ég segja hér, virðulegi forseti, í þessum efnum. Ég óttast að svona geti farið með það frumvarp sem við erum hér að ræða. Að vísu er í þessu frumvarpi oft verið að ræða um eignarskattana. Ég efast ekki um að þeir yrðu háir á orkufyrirtækjum ef þeir væru. Þeir eru, kannski sem betur fer, farnir þó að ég hafi haft aðra skoðun, þ.e. að þeir ættu kannski ekki allir að fara, heldur að hækka eignamarkið eins og stjórnarandstaðan lagði til á sínum tíma. Eignarskattar á orkufyrirtæki munu ekki koma til vegna þess að þeir eru farnir niður þó að um þá sé rætt hér.

Virðulegi forseti. Ég ætla síðan rétt í lokin að segja frá því að þingflokkur Samfylkingarinnar var í heimsókn hjá Orkuveitu Reykjavíkur ekki alls fyrir löngu og eigum kannski eftir að fara þangað aftur. (Gripið fram í: Fenguð þið risarækju?) Nei, við fengum nú ekki risarækju, en ég óttast að afleiðingar risarækju hafi verið í gjaldskrárstofni Orkuveitu Reykjavíkur, sem ég hef gert hér að umtalsefni og gerði að umtalsefni við skýrsluumræðuna í síðustu viku eða hvenær sem hún var, þegar í ljós kom að dreifingarkostnaður er sá hæsti á landinu, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, hjá Orkuveitu Reykjavíkur, og er miklu hærri en hjá Rarik. Það er auðvitað mjög athyglisvert mál.

Virðulegi forseti. Orkustofnun hefur tvo mánuði til að fara yfir þau gögn sem lögð eru fram þessu til rökstuðnings og ég vænti þess að Orkustofnun fari vel í gegnum það. En það hafði í för með sér, virðulegi forseti, að þessi hái dreifingarkostnaður Orkuveitu Reykjavíkur gerði það að verkum að Rarik, Rafmagnsveitur ríkisins, ég vil segja neyddust til að hækka gjaldskrá sína um 20 aura til þess að eiga möguleika á að ná í niðurgreiðslusjóðinn sem er á fjárlögum. Það er með ólíkindum að þetta skuli vera notað til að hækka gjaldskrána og þar með ef til vill hækka gjaldið á íbúum landsbyggðarinnar, nóg er komið.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að það verður aldrei hægt að sætta sig við neitt annað en það að allar þessar hækkanir sem eiga að dynja á íbúum landsbyggðarinnar vegna rafhitunar verði felldar út. Er mér alveg sama hvaða aðferð verður notuð við það, hvort ríkissjóður leggi meira en þær 135 milljónir sem hann ætlar að bæta í þennan sjóð og óttast ég þá og tala eiginlega gegn því að menn fari í einhverjar æfingaferðir um niðurgreiðslusjóðinn, eða menn fari úr 50 þúsund kwst. hámarki í 35 eða hvað það er, sem auðvitað mun bitna fyrst og fremst á fullorðnu fólki, eldra fólki, sem býr á landsbyggðinni í stóru húsnæði, að ég tali nú ekki um bændur og búalið sem munu þá fá þetta meira í hausinn en 10 prósentin þegar fram líða stundir.