131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[14:42]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að standa hér upp, en þvílík endemis vitleysa var í máli hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar áðan. (SigurjÞ: Hvaða?) Ég mun rekja það.

Í fyrsta lagi ætla ég að taka eitt fram varðandi störf í hv. iðnaðarnefnd. Ég á því miður ekki sæti í þeirri nefnd en fram kom í umræðu um daginn um skýrslu iðnaðarráðherra að formaður nefndarinnar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, boðaði það að allir aðilar verði fengnir til fundar í nefndinni og farið yfir þetta mál, líkt og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á áðan, og það er full ástæða til. Ég held því að ekki sé maklegt að kenna stjórnarliðinu um að taka á þessum málum með léttúð, enda hefur hæstv. iðnaðarráðherra einnig boðað það hér að hún sé að beita sér fyrir því að stjórnvöld komi til móts við fólk á landsbyggðinni út af þessum hækkunum og bindi miklar vonir við þá vinnu.

Mig langar aðeins að tala um að hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni virðist Framsóknarflokkurinn vera afar hugleikinn svo ekki sé meira sagt og talar um að Framsóknarflokkurinn sinni ekki Austfjörðum o.s.frv. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að 1. þingmaður kjördæmisins, sem er hæstv. iðnaðarráðherra, er í góðu sambandi við fólk á Stöðvarfirði og það mun verða fundað um það einhvern tímann á næstunni, hann þarf því ekki að hafa neinar áhyggjur af því þótt hann hafi ekki aðkomu að því máli. Þó að Frjálslyndi flokkurinn eigi ekki þingmann í Norðausturkjördæmi, þá eru aðrir að vinna í því máli.