131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:29]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður heldur fram að það er ekki verið að skerða í neinu rétt þeirra efnaminni að þessu leyti enda stendur deilan ekki um það. Hún stendur um hin málin sem eru örfá á hverju ári þar sem — og ég vil undirstrika það — að málin þurfa alltaf að vera þess eðlis að þau gefi tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Þess er alltaf gætt og um það hefur ekki verið deila. Gjafsóknanefnd hefur farið varlega með þessa heimild sína enda hafa, eins og ég segi, komið til fá mál að þessu leytinu. En hvers konar mál eru það? Það eru t.d. mál þar sem ríkið þarf að stefna einstaklingum, segjum að skattyfirvöld þurfi að stefna einum einstaklingi, taka hann út úr stórum hópi til þess að fá fordæmisgefandi dóm. Þessi mál mundu falla niður ef viðkomandi gæti ekki sótt um gjafsókn á grundvelli fjárhagserfiðleika. Þá gæti hann ekki fengið gjafsóknina.

Sömuleiðis eru þetta t.d. skaðabótamál þar sem verið er að reyna að heimta bætur fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil, mál þar sem aflahæfi fólks er skert og þá þarf að fara í skaðabótamál við ríkið, þar sem tekist er á um sök. Þetta gera verið lóðamál. Þetta geta verið sveitarstjórnarmál ýmiss konar og svo mál sem lúta að úrskurðum ráðherra. Þegar svo virðist vera að hæstv. dómsmálaráðherra sé að skjóta sér og sínum samráðherrum í skjól undan þeirri ábyrgð sem eðlilegt er að þeir sæti þá finnst manni eðlilegt að varnaðarbjöllur hringi. Í allsherjarnefndinni hafa verið tekin sem dæmi mál sem höfðuð hafa verið vegna rangra úrskurða eða ósanngjarnra úrskurða ráðherra. Mér finnst eðlilegt að í lögum sé möguleiki hjá fólki að sækja um gjafsókn ef það ætlar að lögsækja eða fá úrskurð fyrir dómstólum hvort ráðherrar hafa kveðið upp lögmæta úrskurði eða ekki.