131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:35]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrra andsvari sínu hélt hv. þingmaður því fram að með þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til sé verið að koma í veg fyrir að menn geti leitað réttar síns fyrir dómi í tilteknum málum og hv. þingmaður tiltók þau mál, t.d. skaðabótamál gegn ríkinu. Ekkert í þessu frumvarpi kemur í veg fyrir að menn geti leitað réttar síns vegna t.d. læknamistaka og þeirrar varanlegu örorku sem hlýst af slíkum mistökum verði þau sönnuð, þar sem tekist er á um sök. Þetta snýst bara um það hvort ríkið eigi að bera þann kostnað eða ekki og við sem stöndum að stjórnarmeirihlutanum erum þeirrar skoðunar að rétt sé að rétta þeim hjálparhönd sem þurfa á hjálpinni að halda vegna fjárskorts en ekki öðrum, ekki þeim sem hafa nægilegt fé á milli handanna til þess að standa straum af málsókn. Það er einfaldlega ekki sanngjarnt og eðlilegt gagnvart skattgreiðendum að hálaunamenn t.d., milljarðamennirnir sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala hér margoft um í öðru samhengi, séu á ríkisspenanum varðandi málskostnað í dómsmálum.