131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:41]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson talar um að hann hafi ekki í hyggju að hrófla við gjafsóknarheimildum í öðrum lögum. Ég tel að hann sé ekki samkvæmur sjálfum sér hvað þetta varðar. Hann telur að eina réttlætingin fyrir gjafsókn sé það bág fjárhagsleg staða að hún eigi eingöngu við í þeim tilvikum þegar um er að ræða einstakling með lægri tekjur en 79 þús. kr. á mánuði. Hv. þingmaður sagði að hann vilji ekki hrófla við þessum heimildum. En hann er að gera það hressilega með því að styðja frumvarpið sem hér er um að ræða því hann er að afnema þessa almennu heimild sem varðar mál sem hafa verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Þetta er alveg meiri háttar skerðing í gríðarlega mikilvægum málaflokkum, einmitt í þeim málum sem iðulega eru höfðuð á hendur ríkisvaldinu sjálfu. Síðan er þetta réttlætt með sparnaði sem er sáralítill í ljósi heildarkostnaðar. Það væri gaman að fá í seinna svari hv. þingmanns frekari svör um það af hverju hann ætlar ekki að hrófla (Forseti hringir.) við öðrum gjafsóknarheimildum fyrst hann leggst svo lágt að hrófla við meginhlið einkamálalaga hvað það varðar.