131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:42]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hlustaði á ræðu mína. Ég fór yfir það í þeirri ræðu að meginþorri, langflest málin þar sem veitt er gjafsókn eru tilkomin vegna þess að þeir sem um slíka gjafsókn sækja eru illa fjárhagslega staddir. Í miklum minni hluta mála er veitt gjafsókn vegna þess almenna ákvæðis sem hv. þingmaður vék að. Það er fáránlegt að segja að hér sé á ferðinni meiri háttar skerðing þegar gjafsókn er veitt af fjárhagsástæðum í meginþorra mála.

Svo virðist hv. þingmaður heldur ekki hafa hlustað á mig þegar ég sagði að við ættum að hafa þessar fjárhæðir, þennan 79 þús. kall á mánuði, til endurskoðunar. Ég lýsti mig reiðubúinn til þess að endurskoða þá fjárhæð. Ég er ekkert bundinn við þá fjárhæð, alls ekki. Hér er því verið að snúa út úr með furðulegum hætti.