131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:48]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég lét þess getið þegar við greiddum atkvæði um þetta mál við 2. umr. að ég liti svo á að verið væri að fella niður úr lögunum rétt sem ég teldi að þar hefði átt að vera, þ.e. b-liðinn í 126. gr. laganna, en jafnframt væri efnislega verið að lögfesta þann lið í þjóðlendulögunum, þ.e. að sá liður sem felldur væri niður í lögunum væri efnislega, þótt hann sé ekki alveg nákvæmlega eins orðaður, færður inn í þjóðlendulögin og þar með er búið að láta þá sem þau lög snúa að, þ.e. þá sem eiga eignarheimild á landi, ekki bara bændur heldur þá sem eiga land, hafa þann rétt sem var verið að fella út úr annarri lagagrein. Ég get ekki séð, virðulegi forseti, þó að þetta sé ekki nákvæmlega eins orðað — og þarf ég nú að bregða mér úr ræðustól, hæstv. forseti, og ná í breytingartillöguna.

Hér er komin fram breytingartillaga sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði grein fyrir áðan og þingmenn stjórnarandstöðunnar í allsherjarnefnd flytja um að lögfesta aftur b-liðinn sem þetta frumvarp gengur út á að fella niður, en hann er svo, með leyfi forseta:

„að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.“

Í þeirri lagabreytingu sem er ætlað að fara inn í þjóðlendulögin og breyta 19. gr. hennar, er þetta orðað svo:

„a. verulega almenna þýðingu eða“ — þá minni ég á að í b-liðnum stóð „hafi verulega almenna þýðingu“ — og hins vegar í b-lið þjóðlendulagabreytingarinnar „varðar verulega miklu um hagsmuni umsækjanda og kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu hefur fyrirsjáanlega mjög veruleg áhrif á efnahag hans.“

Þá kemur síðari málsliðurinn og hann er svo í breytingartillögunni:

„varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.“

Þetta er að vísu aðeins öðruvísi orðað, hæstv. forseti, en mér sýnist þegar þessir textar eru skoðaðir þá sé efnislega verið að setja í þjóðlendulögin sama ákvæðið og við erum að fella niður í 126. gr., ég fæ ekki annað séð. Mér finnst það dálítið skondið, hæstv. forseti, ef hægt er að orða það svo — kannski ætti að orða það svo að það sé frekar snúið að við séum að fella niður réttindi almennings í ákveðinni lagagrein sem varðar réttindi almennings til að gæta réttar síns og hafa skoðun á því hvaða réttarvernd og réttaröryggi þeir vilji nýta sér í lögunum með því að geta sótt um gjafsókn í málum, verið sé að fella það niður, en á hinn bóginn sé verið að lögfesta það fyrir annan hóp manna, í þessu tilfelli landeigendur í heilu lagi, skiptir ekki máli hvort þar er um bændur eða aðra aðila að ræða.

Getur verið að þetta samræmist alveg jafnræðisreglu, að við séum að gera alla þegna landsins jafna með þessum hætti?

Því hefur verið haldið fram um breytinguna á þjóðlendulögunum að eðlilegt væri að tryggja að í öllu ferli sem þar færi fram og mundi fylgja málaferlum og ágreiningi út af þjóðlendulögunum, að þar sætu allir við sama borð frá upphafi til enda. Ég held að betur hefði farið á því að þessi breyting sem gerð er á 126. gr. hefði ekki verið gerð. Þess vegna styð ég breytingartillögu stjórnarandstöðunnar sem hér hefur verið kynnt og held að hún eigi fullan rétt á sér því að ég tel að í raun og veru sé verið að taka upp misræmi með þeirri lagabreytingu sem við erum hér að ræða og stjórnarmeirihlutinn hyggst festa í lög.

Í greinargerð segir um 2. gr., með leyfi forseta:

„Má sem dæmi nefna ef málstilefnið er hæpið og engar eða mjög litlar líkur eru á að kröfur umsækjanda verði dæmdar honum í hag, málshöfðun er ónauðsynleg eða ótímabær, óverulegir hagsmunir eru í húfi, mál varðar viðskipti er tengjast verulega atvinnustarfsemi einstaklings …“

Nú er það svo, virðulegur forseti, að einstaklingi getur fundist verulega á sér réttur brotinn, verið sé að mismuna honum allverulega og brjóta á honum rétt, þó svo að mönnum úti í bæ, þó að í nefndarstarfi, finnist það ekki. Leyfist mér að nefna dæmi, hæstv. forseti.

Trillukarl í Hafnarfirði var sviptur veiðileyfi í þrjár vikur fyrir að veiða 12 kíló af karfa. Ég held að ekki fari á milli mála að trillukarlinum hérna um árið hafi þótt þetta afar ósanngjörn niðurstaða og ekki síst þegar litið er til nútímaframkvæmdar á lögum um stjórn fiskveiða sem viðgengist hefur í nokkur ár, þar sem skipi sem stundar flottrollsveiðar á kolmunna og síld er leyfilegt að landa tugum tonna af fisktegundum utan kvóta án þess að vera svipt veiðileyfi, en sú staða hefur komið upp á síðustu árum.

Trillukarlinn í Hafnarfirði hafði kannski þokkaleg laun auk þess sem þetta sem upp á bar tengdist atvinnu hans. Samkvæmt breytingu á lögunum, ef hann vildi leita réttar síns þá gætu það vissulega orðið talsverð málaferli að fara í mál við framkvæmd Fiskistofu á lögunum um stjórn fiskveiða, að ganga í gegnum það eins og menn þekkja, þau mál hafa iðulega þurft að ganga til Hæstaréttar og jafnvel verið vísað til Mannréttindadómstólsins eins og menn vita. En eins og greinin er orðuð núna og miðað við þær skýringar sem fylgja get ég ekki séð að trillukarlinum hefði verið tryggt það að hann hefði getað leitað réttar síns nema að greiða það allt úr eigin vasa, þó svo að hann hefði getað nefnt dæmi um aðra framkvæmd á öðrum mönnum á öðrum skipum en undir sömu lögum.

Ég tek þetta hérna sem dæmi til að skýra það að réttlæti og réttlætistilfinning einstaklings þarf ekki að vera sú sama og nefndar úti í bæ sem leggur allt annað mat á málið, jafnvel þó að viðkomandi einstaklingur hafi tekjur yfir 100 þús. kr. á mánuði að meðaltali og teljist þar af leiðandi samkvæmt almennri skilgreiningu hafa framfæri.

Ég vildi draga þetta fram, virðulegi forseti, og tel eðlilegt að menn skoði þetta mál upp á nýtt áður en það væri tekið hér til endanlegrar afgreiðslu með það að markmiði að taka upp efnislega það sem lagt er til í breytingartillögu stjórnarandstöðunnar.