131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 4.

[15:25]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns. Ég er að fara í alla framhaldsskóla landsins, 28. Ég er búin með 15, var í hinum glæsilega Verslunarskóla Íslands rétt áðan þar sem ég var að kynna verkefnið sem lýtur að því að stytta námstíma til stúdentsprófs. Það má í rauninni segja að skólaganga fram til loka stúdentsprófs sé í dag 14 ár. Ætlunin er að hún verði 13 ár eins og gengur og gerist í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Þó að það sé ekki ástæða út af fyrir sig að fara í slíka breytingu er það engu að síður þannig að við erum eina landið innan EES sem útskrifar stúdenta í kringum tvítugsaldurinn. Önnur lönd útskrifa sína stúdenta 18–19 ára.

Fagaðilar varðandi niðurstöður og tillögugerð þessa hóps og niðurstöðu verkefnishópsins hafa komið að þeirri skýrslu sem ég er náttúrlega sérstaklega að kynna. Þar eru kennarar, þar er til að mynda fræðslustjóri Reykjavíkur, Gerður G. Óskarsdóttir, sem hefur ára- ef ekki áratugareynslu af skólakerfinu og þar eru menn sammála um að grunnskólinn hafi lengst frá árinu 1996 um rúm tvö ár. Framhaldsskólinn hefur lengst um sem nemur 12 vikum eða heilli önn á sama tímabili þannig að gríðarlegt svigrúm hefur myndast innan skólakerfisins, svigrúm sem við þurfum að nýta betur til að þétta námsefni. Það er ekki verið að gjörbylta kerfinu heldur erum við að byggja á þeim grunni sem fyrir er. Þetta er áframhaldandi þróun í skólastarfi og í rauninni eðlilegt næsta skref miðað við þær breytingar og ákvarðanir sem við höfum tekið í skólakerfinu á liðnum áratug. Svigrúmið er til staðar. Það er sérstaklega undirstrikað að reynt er að vanda til verka, nægur tími gefinn og það er sérstaklega undirstrikað við gerð námskrár og endurskoðun á námskrárvinnunni sem er mjög umfangsmikil að kennarar verða fengnir að því borði.