131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 4.

[15:29]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það verður fróðlegt að sjá þegar málið kemur fram en ég vil taka fram að líkt og kom fram í könnun Félags framhaldsskólakennara eru tveir af hverjum þremur framhaldsskólakennurum andvígir fyrirhugaðri styttingu eins og hún birtist í skýrslunum. Eins hafa komið fram nokkuð eindregnar áhyggjur margra rektora framhaldsskólanna, bæði hefðbundinna bekkjakerfisskóla sem og fjölbrautaskólanna, um að stúdentsprófið verði einsleitara og að sérstaða þess sem fjölbreyttur og breiður undirbúningur undir háskóla hverfi að verulegu leyti.

Ég vil taka undir það að miðað við skýrslurnar er vissulega hætta á að svo verði. Eins vil ég brýna hæstv. ráðherra um að gæta sérstaklega að afdrifum starfsnámsins og verknámsins þar sem þetta kemur til með að hafa töluverð áhrif á það. Það þarf að búa svo um hnúta að þetta verði til að bæta skólakerfið verulega. Ég styð það markmið í megindráttum að stytta námstíma en það verður að vanda vel til verka.