131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 4.

[15:31]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er sérstaklega hugað að því að gera þetta í sem mestri samvinnu og sátt við skólasamfélagið allt. Það skiptir mjög miklu máli. Ég fullyrði að við komum til með að sjá mjög fjölbreytta flóru framhaldsskóla hér á næstu áratugum í kjölfar þessara breytinga.

Ég vil líka benda á að athugasemdir rektora ýmissa framhaldsskóla byggðust m.a. á miklum misskilningi og gefa ekki alveg nægilega heildarsýn á verkið. Ég hef einmitt reynt að útskýra í hverju sá misskilningur þeirra ágætu forsvarmanna fólst.

Menn héldu t.d. að skerða ætti stærðfræðikennslu. Það er ágætt að það komi fram að svo er ekki heldur á að láta skólastigin tala betur saman. Það er einn misskilningur sem hefur komið upp. Annar misskilningur er sá að almennu brautunum komi til með að fækka eða þær verði lagðar af. Það kemur ekki til með að vera svo heldur verður sérstaklega lögð áhersla á almennu brautirnar, (Forseti hringir.) að þær haldi sér í framhaldsskólakerfinu.