131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:47]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Með því frumvarpi sem verið er að greiða atkvæði um er hið almenna ákvæði laganna um að hægt sé að fá gjafsókn þegar úrlausn máls hefur verulega almenna þýðingu fyrir umsækjandann felld brott og viðmiðið verður, ef frumvarpið verður að lögum, fyrst og fremst fjárhagslegt. Það er því beinlínis rangt sem haldið hefur verið fram að verið sé að ganga atbeina stjórnvalda til þess að koma í veg fyrir málssókn á hendur þeim. Allar sömu heimildir verða áfram til staðar í lögunum. Viðmiðið um það hvort gjafsókn verður veitt verður hins vegar það hvort fjárhagur umsækjandans sé þannig að rétt sé að fallast á umsóknina. Það er það sem verið er að gera með frumvarpinu og er eina breytingin sem um er að ræða.

Það er allt önnur umræða hvort viðmið í reglugerðinni í þessu efni sé of lágt. Menn hefðu betur einbeitt sér að þeirri umræðu og haldið því fram að hækka bæri viðmiðið en að halda því fram að stjórnvöld séu að koma í veg fyrir málsókn á hendur sér, vegna þess að það er beinlínis rangt.