131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[15:54]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um helgidagafrið, nr. 32 frá 14. maí 1997.

Ég vil taka undir allt það sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði. Mér finnst þetta afar ánægjuleg lending á góðu samstarfi þeirra aðila sem að málinu komu. Nú þurfa höfuðborgarbúar ekki lengur að fara til Hveragerðis til að kaupa inn vörur á helgidögum. Það hefur greinilega orðið ákveðin millilending þar sem er farið bil beggja og hafðar í heiðri ákveðnar reglur þannig að það verði ekki allt galopið hvort sem það eru verslanir með fatnað eða annað.

Ég tek undir breytinguna og minni á, sem er svolítið sérkennilegt, að það hefur oft verið erfiðast á höfuðborgarsvæðinu að nálgast einhverjar vörur á helgidögum og verið að leysa það núna. Ég fæ ekki betur séð þar sem góð vinna hefur farið fram en að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hv. allsherjarnefnd gæti afgreitt málið fljótt og vel, jafnvel fyrir páska þannig að á föstudaginn langa væri hægt að fá bensín á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er vel unnið mál og líka gerð grein fyrir því hvernig þetta er annars staðar á Norðurlöndunum. Við förum svolítið dönsku leiðina sem er afar jákvætt. Ég hef ekki annað um málið að segja en að það verður áhugavert að ræða það í hv. allsherjarnefnd.