131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:40]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að tryggt sé að veiðarnar verði sjálfbærar. Þess vegna þarf ráðherra hverju sinni að hafa í höndunum bestu aðferðir til að slíkt sé unnt. Hins vegar er alveg ljóst að þegar ákveðið var að rjúpan yrði friðuð voru stofnanir umhverfisráðuneytisins sem um þau mál ber að fjalla, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, ekki sammála í áliti sínu á því hvort aflétta bæri friðun eða ekki. Ég býst við að hv. þingmaður sé að vísa til þess. Þar að auki voru skoðanir sérfræðinga á þessu sviði skiptar.