131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:34]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að gera ýmsar athugasemdir við ræðu hv. þingmanns, en ég ætla nú að taka undir ýmislegt sem er jákvætt líka og það ber að taka undir það, svo sem eins og að friða svæði og reyna að stýra sókninni.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem einmitt þetta frumvarp gengur út á, þ.e. að stýra sókninni. Telur hann það ekki almennt vera miklu vænlegra til að vernda dýrastofna að fara þá leið sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til, þ.e. að stýra sókninni og vernda svæði í stað þess að vera með eitthvert kvótakerfi?