131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:35]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel kvótakerfi nauðsynlegt í fiskveiðum, en ég vil benda hv. þingmanni á að eignarréttur manna er mjög sterkur víðs vegar um landið. Bændur hafa leyfi til að banna mönnum veiðar á jörðum sínum. Það er í þeirra hendi hvort veiðin er sótt. Það er með öðrum orðum eignarréttarleg stýring á veiðunum. Það er það sem við erum að tala um. (Gripið fram í.) Ég vil … það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég vil ekki leyfa veiðar á viðkvæmustu stöðum landsins.

Ég hygg að hv. þm. Jóhann Ársælsson sé ekki reiðubúinn til að lýsa því yfir að ríkið eigi engin afskipti að hafa af því að frjálst fugla- og dýralíf sé hér á landi, nema hv. þingmaður sé að gefa það í skyn að honum finnist rétt að fara eftir tillögum formanns Skotveiðifélagsins og leyfa mönnum að skjóta hrossagauk í matinn.