131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:37]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mjög ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður sjái einmitt kostina við að stýra sókninni og vonandi að hann sjái að það verði einnig vænlegra með ýmsa aðra dýrastofna. Ég tel að ljósið renni nú upp fyrir ágætum þingmönnum og þeir viðurkenni að Frjálslyndi flokkurinn hafi einfaldlega rétt fyrir sér í þessu máli, enda hefur árangur þess að stjórna þorskveiðum í tíð Sjálfstæðisflokksins verið hörmulegur og hrein sorgarsaga.

Hvað varðar fuglaskoðun og skotveiðar þarf það ekki að stangast á, það get ég staðfest, vegna þess að ég er meðlimur í Fuglaverndarfélagi Íslands og stunda einnig skotveiðar. Það sem er miklu mikilvægara fyrir fuglavernd er einmitt vernd búsvæða, að fuglar hafi búsvæði, en veiðar skipta kannski ekki öllu máli eins og oft er gefið í skyn hér í umræðunni.