131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:41]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Góður minkaveiðimaður og þaulvanur veiðimaður hefur sagt mér að hann telji að hægt sé að útrýma mink úr íslenskri náttúru, en hann segir að það sé dýrt. Ég hef heyrt tölur um það og mér finnast þær ekki háar ef þetta er í raun og veru hægt. Um það þarf auðvitað að vera mikil sátt og menn verða að gera sér grein fyrir að það kann að mistakast. Mér finnst þetta mjög freistandi hugmynd, að útrýma minknum og tel að landið mundi gjörbreytast til hins betra. Að vísu játa ég það að norður á Sléttu voru miklir minkaveiðimenn fyrir 20, 30 árum á einum bæ og þegar við hjónin og vinir okkar tjölduðum þar niðri á sjávarkambinum tókum við eftir því að fjaran var full af rottum sem hurfu síðan eftir að veiðimennirnir hættu að veiða minkinn. Ég veit því ekki hvað við fáum ef minkurinn hverfur.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni líka um það, auðvitað verður að gera undanþágu ef við erum að tala um minkaveiðar í friðlöndum, enda er heimilt að skjóta mink í æðarvarpi eins og hv. þingmaður veit, svo ég geri ekki athugasemd við það.

Á hinn bóginn er rétt að rifja upp í þessu sambandi að ýmsir halda því fram að innan þjóðgarðanna sé ekki nógu vel staðið að eyðingu minks og er nauðsynlegt að það sé athugað. Ég vil biðja hæstv. umhverfisráðherra að athuga hvort sá orðrómur hefur við rök að styðjast.