131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:43]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Virðulegu forseti. Það er að mínu viti algjörlega rétt sem hv. þingmaður vék að áðan að ekki er nægilega vel staðið að eyðingu minks í friðlöndum og reyndar dreg ég mjög í efa það uppeldishlutverk sem við höfum tekið að okkur að hafa þar varðandi tófuna og hvort það sé nú hið rétta í náttúru Íslands.

Í ljósi þess að við erum nokkuð sammála um viðhorfið til minksins, þá hefði ég líka viljað spyrja hv. þingmann hvort hann gæti ekki fallist á þá skoðun sem ég hef í þeim málum að það verði að vera ríkið sem taki að sér alfarið að sjá um veiðar á minknum. Það þarf auðvitað að ná betra samkomulagi en verið hefur undanfarin ár um það í dreifðum og fámennum sveitarfélögum hversu mikinn kostnað þau bera af refaveiðinni. Þær reglur held ég að þurfi að endurskoða alveg gjörsamlega upp á nýtt.